131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:19]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst ekki koma nægilega skýrt fram hjá hv. þingmanni hvernig menn geta grætt. Ég nefndi lækna sem dæmi. Þeir eru sennilega með hæst laun allra háskólamanna og kannski hæst laun allra launþega í landinu, það mætti kannski taka togaraskipstjóra til hliðsjónar. Læknar starfa nánast allir hjá hinu samfélagslega kerfi. Þeir eru allir með tölu hjá þeirri fögru starfsemi. Af hverju skyldu þeir mega græða í þessum skilningi en ekki aðrir sem fara út í einkaframkvæmdir? Ég hef ekki fengið svar við því og hv. þingmaður klykkti út með því að tala um líknarfélög. Er einhver munur á líknarfélagi sem borgar gífurlega há laun og er með góð lífeyrisréttindi og annað slíkt og einhverju einkafyrirtæki sem borgar eiganda sínum arð með nákvæmlega sama hætti, fyrir nákvæmlega sömu upphæð?