131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[16:56]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst koma fram í ræðu hv. þingmanns að þetta væru tvö mál. Við erum annars vegar að tala um það að sveitarfélög fái styrki til stofnframkvæmda á ákveðnu sviði og hins vegar erum við að tala um þróun sem flestir sem hafa talað í dag vara eindregið við. Það er meginmálið. Þetta frumvarp breytir engu um það. Þótt við settum þetta frumvarp á ís mundu íþróttahús, skólar og annað slíkt halda áfram að detta ofan af himnum sem enginn greiðir, að því er sýnist.

Þess vegna sagði ég að þetta væri smámál og skipti í sjálfu sér ekki stóru máli og ég mun væntanlega annaðhvort styðja það eða sitja hjá. Sérstaklega kæmi til greina að ég mundi styðja það ef tekið yrði fram í nefndaráliti að skuldbinding vegna slíkra stofnframkvæmda yrði færð núvirt til skuldar hjá sveitarfélaginu og auk þess yrði fært hver árleg greiðslubyrði sveitarfélagsins af því yrði. Þá lægi það alveg fyrir. Þetta er ekki ágreiningurinn. Svo getum við deilt um það hvort eigi að fara í einkaframkvæmd eða ekki. Hv. þingmaður talaði um einhvern aðila sem ætti hlut í 20 skólum, eins og það væri eitthvað voðalega ljótt. Það getur verið betri rekstur hjá einkaaðilum. Það hefur bara ekkert reynt á það hér á landi nema kannski í grunnskólum í Reykjavík þar sem lengi hefur verið einkaframkvæmd. Mér skilst að þeir fái miklu lægri gjöld frá Reykjavíkurborg en aðrir skólar að meðaltali. Sá rekstur virðist aldeilis borga sig.