131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

660. mál
[13:43]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil hvetja hann til að líta á þessa umræðu og þær undirtektir sem hann hefur fengið sem hvatningu til að standa vel að Greiningarstöðinni og bæta við þeim stöðugildum sem upp á vantar miðað við þá þarfagreiningu sem gerð var á árunum 2002–2003. Þarfagreiningin sýndi að þá vantaði átta stöðugildi, síðan hafa komið þrjú og hálft stöðugildi, og nú er staðan sú að það þarf enn fleiri en þessi átta til að hægt sé að vinna á þessum biðlistum og gera stöðinni það kleift að sinna hlutverki sínu svo að ásættanlegt sé. Það er búið að bæta úr húsnæðisvanda stöðvarinnar þannig að sá þáttur á að vera í lagi. Það er hægt að þjóna þarna fleirum en gert er í dag en það vantar fólk. Auðvitað verður að standa þannig að starfsmönnum þessarar stofnunar að störfin verði eftirsóknarverð og byggir það m.a. á laununum.

Það er þessi biðtími sem er óásættanlegur og þegar við erum að tala um kostnað er það spurning hvort við horfum í kostnað vegna stöðugilda í dag eða kostnað sem þjóðfélagið mun búa við til lengri tíma litið þegar þjónustan við þessi börn verður meiri. Það er vísindalega sannað að því lengur sem greiningin tefst, því lengur sem dregst að grípa inn í með stuðningi, (Forseti hringir.) því dýrari verður þjónustan við þessi börn þegar þau eldast.