131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri.

611. mál
[15:01]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Það er auðvitað eðlilegt að tilfinningar skapist í kringum ákvarðanir sem þessar. Það er alltaf sárt þegar vinnustaður sem lengi hefur verið, þó hann starfi ekki nema fimm, sex vikur á hausti, hverfur.

Auðvitað er það rétt sem hér hefur komið fram að gulrótin í málinu er hagræðing í sláturiðnaði til að bæta kjör sauðfjárbænda og þeirra í Skaftafellssýslu líka. Ríkið ber því að því leyti ábyrgð, eins og fram kom hjá hv. þingmönnum, að það hefur sett gulrótina fram til að hagræða og bæta kjör sauðfjárbænda, sem kannski kemur síðan hinum megin frá að þeir sem unnu í húsinu hafa ekki tekjurnar áfram nema þá að fara lengra til að sækja sér vinnu. Allt er þetta rétt hjá hv. þingmönnum og þetta skapar auðvitað tilfinningar sem eðlilegar eru.

Varðandi útreikningana fór fram mikil vinna og skýrsla var gerð og hv. þingmenn geta kynnt sér þær án þess að fullyrða um að engar forsendur séu til staðar og að engar rannsóknir hafi farið fram. Sláturfélag Suðurlands átti rétt á úreldingunni og nýtti sér hana. Ég er sannfærður um að Sláturfélag Suðurlands hefði ekki rekið húsið áfram hvort sem þessi peningur hefði komið eða ekki, eins og það hefur kynnt málið fyrir mér og fyrir heimamönnum. Sláturfélag Suðurlands er sterkara í dag en fyrir fimm árum og er sterkara í dag út af úreldingum bæði á Laxá og þessari stöð. Það er því þeirra mál.

Ég verð að segja fyrir mig að mér fannst margir hv. þingmenn horfa til framtíðar, tala um uppbyggingu á mörgum sviðum í Vestur-Skaftafellssýslu, það má ekki rugla heimavinnslu afurða saman við sláturhúsið, það er allt annað mál, hv. þm. Jón Bjarnason. Svo gerist það alltaf í umræðum sem þessum að menn koma eins og þeir séu í norðanvindi og stórhríð. Sumir þingmenn eru alltaf í norðanvindi og stórhríð, neikvæðir, öfugir og tala með þeim hætti að það er engin leið að sætta sig við málflutninginn. (Forseti hringir.)

En ég þakka hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni alveg sérstaklega fyrir bjartsýna ræðu. Hún kom þó frá Frjálslynda flokknum.