131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heimasala afurða bænda.

636. mál
[15:15]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Mér finnst hún góð og tek undir þau orð hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar að hvetja landbúnaðarráðherra til dáða því þar held ég einmitt að hundurinn sé grafinn. Það er ekki nóg að tala hér og safna skýrslum ef ekkert gerist. Ég minnist þess að ráðherra hefur talað um þetta undanfarin fjögur, fimm ár á þingi og talað fyrir því fjálglega eins og honum er lagið. En ekkert gerist. Ég tel því að núna sé brýnt að gera aðgerðaráætlun, tímasetta aðgerðaráætlun þannig að hlutirnir gerist.

Hún var snjöll þessi hugmynd ráðherrans að láta fólk sækja kjötið sitt á sláturhúsin aftur til að vinna það heima. Bíðum við, það eru kannski svona 300–800 kílómetrar. Með því að loka litlu sláturhúsunum vítt og breitt um landið er verið að skera af þennan möguleika.

Mér finnst mikilvægt að ráðherra horfi á þessi mál í heild sinni, sé ekki að vinna skemmdarverk með annarri hendinni og svo lofa bót og betrun með hinn og svo gerist ekkert. Ég tek því undir með hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni og hvet landbúnaðarráðherra (Forseti hringir.) til dáða.