131. löggjafarþing — 105. fundur,  6. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[15:56]

Jón Gunnarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er á ferðinni stærra mál en virðist við fyrstu sýn. Hér er á ferðinni tilraun til að hunsa áður yfirlýstan vilja Alþingis og fá dæmi til um skýrari tilraun framkvæmdarvalds eða ráðherra til að valta yfir vilja Alþingis og þar með talið alþingismanna.

Frumvarpið sem nú er til afgreiðslu er um að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins fyrr en ráð hefur verið fyrir gert. Áætlað er að eignir sjóðsins geti numið 500–600 millj. kr. við niðurlagningu hans og ráð er fyrir gert að þeir fjármunir skuli renna óskiptir til hafrannsókna.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra sem leggur fram þetta frumvarp gerir það vitandi um þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi árið 2000, um varðveislu gamalla skipa og báta. Sjávarútvegsnefnd þingsins í heild sinni flutti þá tillögu og þar var gert ráð fyrir að Þróunarsjóður sjávarútvegsins tæki þátt í fjármögnun verkefnisins. Það hefur Þróunarsjóðurinn ekki gert til þessa og ekki virðist hæstv. menntamálaráðherra hafa sóst eftir fjármunum úr sjóðnum í varðveislu skipa og báta, sem er óskiljanlegt.

Þróunarsjóð átti í núgildandi lögum að leggja niður árið 2009 og gæti hann því enn tekið þátt í varðveislunni á næstu árum ef ekki væri verið að leggja hann niður. Minni hluti sjávarútvegsnefndar reyndi mikið innan nefndarinnar að ná samstöðu um að frumvarpinu yrði breytt á þann hátt að Þróunarsjóður uppfyllti skyldur sínar varðandi varðveislu á bátum og skipum í samræmi við þingsályktunartillöguna. En skemmst er frá því að segja að meiri hlutinn tók því fálega, sem er furðulegt í ljósi þess að sumir meirihlutamanna voru flutningsmenn að þingsályktunartillögunni sem um ræðir.

Niðurstaðan varð sú að minni hlutinn flytur hér tillögu um að við niðurlagningu á Þróunarsjóði verði vilji Alþingis virtur og hluti fjármuna hans renni til varðveislu gamalla skipa og báta. Tillagan um að Þróunarsjóður taki þátt í því verki var áður samþykkt á Alþingi með 49 atkvæðum. Enn sitja 34 þingmenn sem sögðu já á þingi. Þar af eru átta hæstv. ráðherrar.

Ég ber þá von í brjósti að einhverjir þeirra þingmanna stjórnarflokkanna sem samþykktu þingsályktunartillöguna séu enn sama sinnis og hafi ekki skipt um skoðun og séu tilbúnir til að standa við fyrri skoðun sína þó að það sé ekki þóknanlegt hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Hverjir eru þessir þingmenn? Ég ætla að leyfa mér að lesa upp nöfn þeirra, með leyfi forseta, en eyði ekki tíma í að lesa upp nöfn hæstv. ráðherra þar sem ég á ekki von á því að það þýði nokkurn skapaðan hlut.

Þeir hv. þingmenn stjórnarliðsins sem áður vildu að Þróunarsjóður tæki þátt í varðveislu skipa og báta voru: Arnbjörg Sveinsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Einar Kristinn Guðfinnsson, Einar Oddur Kristjánsson, Guðmundur Hallvarðsson, Gunnar I. Birgisson, Halldór Blöndal, Hjálmar Árnason, Jónína Bjartmarz og Kristinn H. Gunnarsson, sem mælti jafnframt fyrir tillögunni.

Hæstv. forseti. Það á eftir að koma í ljós hver niðurstaðan í atkvæðagreiðslunni um breytingartillögu minni hlutans verður en ég vona að við getum treyst á stuðning þeirra þingmanna sem ég las hér upp og að þeir séu ekki þeir hryggleysingjar að segja nei og greiði atkvæði og segi já með breytingu minni hlutans.