131. löggjafarþing — 105. fundur,  6. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[16:17]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tel að við séum hér að missa af einstöku tækifæri til að búa til myndarlegan sjóð sem gæti stuðlað að varðveislu minja tengdum sjávarútvegi.

En það er annað í þessu máli sem mig langar til að vekja athygli á og ég tel að þingheimur geri sér ekki grein fyrir. Það er það að við erum núna í þann veginn að búa til risastóran peningapott fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra, 600 milljónir renna í Verkefnasjóð sjávarútvegsins en yfir honum ræður hæstv. ráðherra einn. Hann getur deilt úr þeim sjóði gríðarlegum fjárhæðum til þeirra sem honum eru þóknanlegir í hafrannsóknum á hverjum tíma. Hér erum við að búa sem sagt til sjóð sem ég tel í raun og veru að sé alveg óverjandi að einn maður hafi svona mikil völd yfir þó að um hæstv. ráðherra sé að ræða. Þetta býður heim hættunni á spillingu og ég tel því brýnt í framhaldi af því hvernig þessi atkvæðagreiðsla mun sennilega fara hér á eftir að farið verði í að breyta lögum um Verkefnasjóð sjávarútvegsins þannig að aðrir en hæstv. sjávarútvegsráðherra geti ráðið því hverjir eru í stjórn þess sjóðs á hverjum tíma. Í dag sitja þar í stjórn (Forseti hringir.) þrír starfsmenn sjávarútvegsráðuneytisins.

Ég segi já.