131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Skaðabótalög.

681. mál
[14:36]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir innlegg hv. þm. Péturs H. Blöndals vegna þessa máls. Það er athyglisvert að hlýða á mál hans enda er hann sérfróður um þessi efni.

Það er aðeins eitt sem ég staldraði við í máli hans en það varðaði oftrygginguna og hvaða leiðir væru mögulegar til að tryggja, skulum við segja, að enginn fái of lítið miðað við það tjón sem hann hefur orðið fyrir og á sama tíma að enginn fái of mikið. Þar eru spennandi hugmyndir sem hv. þingmaður hefur, um að skoða nýjar leiðir, til að mynda sjóð eins og hann lýsti í máli sínu.

Breytingin í 1. gr. þessa frumvarps fjallar einmitt um hættuna á því að einstaklingar fái ekki fullar bætur vegna þess tjóns sem þeir hafa orðið fyrir. Hvers vegna? Jú, vegna þess að dregið hefur verið frá skaðabótunum sem þeim eru greiddar út af einhverjum tekjum sem óvíst er að þeir fái í framtíðinni. Þannig er framkvæmdin í dag. Við þessu er frumvarpinu ætlað að bregðast.

Það má örugglega segja sem svo að í einhverjum tilvikum muni þetta leiða til þess að viðkomandi tjónþolar fái meira en ella. En er ekki nokkuð öruggt að með þeirri framkvæmd sem viðhöfð er í dag geti komið upp tilvik þar sem tjónþolar fá ekki tjón sitt að fullu bætt vegna þess að í framtíðinni falli niður greiðslur sem byggt var á við uppgjörið, þ.e. gert ráð fyrir og (Forseti hringir.) dregnar voru frá skaðabótakröfum?