131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:54]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að gera örstutta athugasemd við ræðu hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur. Hún talaði hér um Hólaskóla, sá skóli er í kjördæmi hennar og það er eðlilegt að hún vilji sjá þann stað eflast. Hann er hins vegar ekki háskóli enn sem komið er eins og hv. þingmaður nefndi. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort ekki hefði verið eðlilegt að Hólaskóli hefði verið settur undir Landbúnaðarháskóla Íslands á síðasta ári eins og skólarnir tveir sem við nefndum áðan, Hvanneyrarskólinn og Garðyrkjuskóli ríkisins, að það væru mestu samlegðaráhrifin og besta nýtingin á fjármagni og þekkingu.

Hv. þingmaður talar um að mannauðurinn sé færanlegur. Það er hárrétt. Það sem ég átti við í ræðu minni áðan var að á Selfossi er nú þegar fyrir hendi gríðarlegur mannauður sem tengist beint störfum hinnar nýju stofnunar, Landbúnaðarstofnunar. Sá mannauður verður ekki færður vegna þess að hann liggur í fyrirtækjum og stofnunum á Selfossi vegna atvinnugreinarinnar, landbúnaðarins. Ég er að tala um að færa mannauð sem verður í Landbúnaðarstofnuninni af þeim mannauði sem fyrir er á svæðinu. Þannig vil ég ná fram samlegðaráhrifum.