131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Útflutningur hrossa.

727. mál
[17:27]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að bera upp örlitla fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra varðandi þetta frumvarp. Í fyrsta lagi vil ég segja það að ég er sammála efni frumvarpsins.

Spurningin lýtur að athugasemdum frumvarpins. Þar kemur fram að eftirlitsdýralæknar skoði hrossin áður en þau eru flutt út og það er vel. Þar með fylgja hrossunum vottorð frá viðkomandi dýralæknum og það er gott.

Nú langar mig að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvort ekki sé rétt að taka það upp að hér verði búin til handbók með íslenska hestinum þannig að þeir erlendu kaupendur sem fá íslenskan hest fái handbók með hestinum sem geti um meðferð, fóðrun, getu hestsins o.s.frv. Ég þekki það af eigin raun að margir í þessum viðskiptum hafa rætt um að það vanti svona „manual“ sem við köllum, líkt og fylgir heimilistækjum, bílum og hvað það nú er sem við kaupum, að með þurfi að fylgja leiðbeiningar. Ég held að það væri ekki síður mikilvægt en sú litla lagabreyting sem þarna kemur fram.