131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[16:51]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í efnislega umræðu við hæstv. menntamálaráðherra á þessu stigi málsins í andsvari en það er alveg nauðsynlegt að við séum upplýst um það hér hvaðan þetta frumvarp er ættað. Það kemur fram í greinargerð hæstv. menntamálaráðherra og í máli hennar líka að frumvarpið sé samið á vegum starfshóps. Það var óskað eftir því formlega að fjölmiðlanefndin fengi málefni Ríkisútvarpsins inn á sitt borð. Það fékk hún ekki. Því var mótmælt. Nú tel ég okkur eiga heimtingu á að vita hverjir sömdu þetta frumvarp, og kannski í framhaldi af því: Hvers vegna var fjölmiðlanefndinni ekki fengið það hlutverk að semja frumvarpið eða gera tillögur um Ríkisútvarpið? Ég tel rétt að hæstv. menntamálaráðherra skilgreini og geri okkur grein fyrir því hér hvers vegna sú leið er valin sem hér er farin og hefur verið gagnrýnd.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra um dreifingu dagskrár Ríkisútvarpsins til allra landsmanna. Eitt af því sem fjölmiðlanefndin gerir að umtalsefni í fjölmiðlaskýrslunni er dreifikerfin og sérstaklega núna í heimi hinnar nýju stafrænu tækni. Ég sé ekki að dreifing efnis eða dagskrár Ríkisútvarpsins sé tryggð með þessu frumvarpi og ég sakna ákvæða sem t.d. koma fram í 20. gr. þeirra laga sem nú eru í gildi um Ríkisútvarpið. Ég sé ekki að hér sé á nokkurn hátt, hvorki í greinargerð né í lagagreinunum sjálfum, horft til þess að Ríkisútvarpið er fjölmiðill sem lögum samkvæmt á að fara til. allra landsmanna og ekki nóg með það, heldur líka til sjómanna á hafi úti.