131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[17:55]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þannig er að útvarpsráð verður fyrst og fremst rekstrarstjórn. Ég ætla ekki að fara að hártogast um orðið sjálft en ég legg kannski ekki dýpri merkingu í það.

Varðandi e-liðinn sem hv. þm. Mörður Árnason kom inn á hér áðan þá verð ég að segja að ég hafði ekki hugarflug í að sjá þá merkingu sem hann kom fram með. Sú merking sem ég legg í e-liðinn er fyrst og fremst sú að stjórnin hljóti að setja einhvern ramma, hún hlýtur að setja einhverjar almennar siðareglur eins og tíðkast á flestum fjölmiðlum landsins. Ég vona innilega að það sé ekki meiningin að stýra fréttastofunni pólitískt. Það er a.m.k. ekki það sem lagt er upp með eins og hæstv. menntamálaráðherra hefur greint frá.

Mér finnst ekki óeðlilegt að ný stjórn setji almennan ákveðinn ramma. Það er enginn að tala um pólitísk afskipti, ekki nokkur maður að gera það. Ég held að við verðum bara að horfa á allt þetta í samhengi og ætla ekki því fólki sem þarna mun sitja hið versta.