131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:19]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir skemmtilega og nokkuð málefnalega umræðu um þetta annars mikilvæga frumvarp sem við ræðum um málefni Ríkisútvarpsins. Ég ætla mér í ræðu minni að fara yfir þau álitaefni sem sett hafa verið fram af hálfu hv. þingmanna sem hafa tekið til máls. Þau eru nokkur.

Ég vil byrja á að undirstrika að tilgangurinn með frumvarpinu er fyrst og fremst að nútímavæða Ríkisútvarpið. Segja má að það sé ein af ástæðum fyrir því að farið var af stað í þá vegferð að skerpa á hlutverki Ríkisútvarpsins og um leið, og það er kannski hitt stóra markmiðið fyrir mína parta, að ýta undir menningarhlutverk Ríkisútvarpsins og skerpa á því sem fellur þar undir og þá ekki síst að sjá tækifærin í að efla innlenda dagskrárgerð innan Ríkisútvarpsins og Ríkisútvarpsins sf. þegar til lengri tíma er litið. Það er að mínu mati það sem við erum að gera hér. Við erum að setja það niður svart á hvítu hvernig við viljum sjá Ríkisútvarpinu og hlutverki þess háttað til framtíðar og um leið, sem ég kem betur að síðar, fara svipaðar leiðir sem mér finnst miður að hafi verið gerðar tortryggilegar hér og stjórnvöld í Bretlandi hafa gert við BBC. Þar hefur verið settur niður ákveðinn rammi og ákveðnar kröfur til handa ríkisútvarpinu þar um hvernig þeir eiga að uppfylla hlutverk sitt sem fellur undir almannaþjónustuhlutverk og menningarhlutverkið.

Fyrr í dag hafa menn talað um að það ætti einfaldlega að bíða með Ríkisútvarpið fram á haust og ræða þetta allt í einni samfellu við fjölmiðlafrumvarp sem verður vonandi lagt fram þá. Gott og blessað. Ég er búin að fara yfir það fyrr í dag, en mér finnst engu að síður sú umræða sem hefur verið í dag varðandi Ríkisútvarpið kristalla það að það hefði verið mjög erfitt að ná sátt á meðal stjórnmálaflokkanna um Ríkisútvarpið, ekki síst þegar maður heyrir til að mynda hv. þm. Ögmund Jónasson ræða um afstöðu stjórnarandstöðuflokka varðandi Ríkisútvarpið. Þegar maður sér að stjórnarandstaðan nær ekki einu sinni samhljómi í málflutningi sínum varðandi Ríkisútvarpið verður auðvitað fátt um svör við því þegar menn halda því fram að allur þingheimur geti náð sátt og samkomulagi um þetta mikilvæga málefni sem Ríkisútvarpið er. Vísa ég til orða hv. þingmanns gagnvart því sem m.a. talsmenn Samfylkingarinnar hafa haldið fram í umræðunni. (Gripið fram í.)

Það er líka rétt hjá hv. þm. Merði Árnasyni að menn hafa ekkert verið feimnir við að tjá skoðanir sínar innan Sjálfstæðisflokksins gagnvart Ríkisútvarpinu. Það á auðvitað að vera þannig og mikið fagnaðarefni að menn átti sig á því að skoðanir eru skiptar innan þess flokks eins og hefur verið lengi.

Það er alveg ljóst að fjölmiðlanefndin góða sem skilaði skýrslunni sem við ræddum fyrr í dag telur að Ríkisútvarpið verði að hafa þannig ramma að það geti sinnt hlutverki sínu til framtíðar. Nefndarmenn telja m.a. óhjákvæmilegt að fjárhagsleg staða Ríkisútvarpsins verði tryggð til framtíðar, það er eitt af þeim markmiðum sem nefndarmenn í fjölmiðlanefnd setja fram. Einnig lagði nefndin áherslu á það hlutverk Ríkisútvarpsins að standa fyrir öflugri þjóðmálaumræðu og innlendri dagskrárgerð jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi. Segja má að í dag með 1. umr. um frumvarpið um Ríkisútvarpið séum við einmitt að nálgast markmiðið sem nefndarmenn í fjölmiðlanefnd settu fram um Ríkisútvarpið. Ég tel alla vega svo vera. Ég tel mig einmitt vera að koma til móts við hugmyndir nefndarmanna fjölmiðlanefndar um hlutverk Ríkisútvarpsins þannig að í dag erum við strax að taka fyrstu skrefin í þá átt að uppfylla það sem sú nefnd setti fram.

Ég ætla að byrja á að fara rétt aðeins yfir fjármögnunina varðandi Ríkisútvarpið. Spurningar hafa verið lagðar fram af hálfu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hvort ekki hefðu verið kannaðar fleiri leiðir, m.a. leið sem Þorsteinn Þorsteinsson, markaðsstjóri Ríkisútvarpsins, setti fram og hv. þingmaður útfærði í gegnum fasteignagjöldin. Ég get upplýst það hér að við fórum vel yfir þá tillögu. Við fórum líka vel yfir fleiri tillögur sem voru settar fram eins og hvort hægt væri að nýta persónuafsláttinn. Ég vil vekja athygli á því að sú leið sem hv. þingmaður Jóhanna Sigurðardóttir vekur máls á er í gegnum fasteignagjöldin. Það er að hluta til tekjustofn sveitarfélaganna. Við fórum því gaumgæfilega yfir mjög marga þætti og tókum það hreint og klárt fyrir hvaða leiðir væru bestar til þess að hafa þær skýrar og gegnsæjar og ekki flækja um of það kerfi sem er til þess að afla ríkisstofnunum tekna. Við komumst að þeirri niðurstöðu að fara þá leið sem boðuð er í frumvarpinu og rétt að geta þess að nýjasta skoðanakönnun bendir til þess að flestir landsmanna telja þá leið vera vænlegustu leiðina til að standa undir fjármagni við fjármögnun Ríkisútvarpsins, þ.e. nefskattsleiðina. Þar á hæla koma afnotagjöldin, þannig að menn hafi það á hreinu því menn voru að vitna í ýmsar skoðanakannanir sem gerðar hafa verið í gegnum tíðina.

Þetta er því leiðin. Við teljum hana vera einfaldasta. Það er auðvitað alltaf hægt að finna einhverja hnökra á þeim leiðum sem lagðar eru fyrir, en við teljum engu að síður þetta vera skynsamlegustu leiðina eins og málum er háttað nú og förum svipaðar leiðir og farin er til að fjármagna Framkvæmdasjóð aldraðra. Þar er tekjutengingin um 855 þús. Menn hafa verið að draga það fram, sérstaklega hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, að það gæti leitt til mikils álags á fjölskyldur með tvo eða þrjá unglinga á heimili sínu og verður að upplýsa hér að mjög fáar fjölskyldur sem hafa unglinga á heimili sínu hafa um 855 þús. kr. tekjur eða meira innan sinna raða. Það eru því mjög fá tilvik og ég fullyrði að þau eru og verða mjög fá, enda má líka spyrja á móti þegar fólk er komið með þó þessar tekjur, unglingar líka sem búa væntanlega í ókeypis húsnæði og allt sem því fylgir, hvort ekki sé eðlilegt að þeir taki þátt í því sem kallast samfélagslegar skyldur. Ég held að menn hljóti að varpa fram þeirri spurningu líka.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri hv. þingmenn spurðu hvort ekki væri rétt að fara þá leið að efla aðgang starfsmanna að stjórn Ríkisútvarpsins. Við skulum hafa í huga að með þeirri leið sem farin er í frumvarpinu er verið að breyta útvarpsráði algjörlega. Það er verið að stokka það upp og setja fram algjörlega nýja hugmynd sem klippir á afskipti útvarpsráðs af innri málefnum Ríkisútvarpsins. Nýja útvarpsráðið, hin nýja rekstrarstjórn, á ekki að hafa afskipti af dagskrá eða því sem viðkemur dagskránni og framkvæmd þess sem er gert innan Ríkisútvarpsins og fellur undir dagskrárhlutverk þess. Rekstrarstjórnin hefur fyrst og fremst með rekstrarstjórnun að gera eins og orðið gefur til kynna og á eingöngu að sinna þeim málum og málefnum. Það skiptir mjög miklu að hafa það í huga. Þegar kemur að því að krefjast þess að starfsmenn verði þar innan borðs tel ég óeðlilegt að starfsmenn hafi eftirlit með sjálfum sér eins og rekstrarstjórnin á að gera, hún á að hafa eftirlit með rekstrinum og þar með talið því sem starfsmenn eru að gera og framkvæma rekstrarlega séð.

Einnig má benda á að í ljósi uppákomu síðustu vikna held ég að það sé ekki mjög farsælt að draga starfsmenn í stjórn Ríkisútvarpsins. Ég held að það sé ekki heppileg leið og tel að rétt sé í þessu fyrirtæki sem og öðrum ríkisstofnunum að fá utanaðkomandi aðila til að fara með þá stjórn sem lýtur að rekstri fyrirtækisins eins og rekstrarstjórnin er boðuð í frumvarpinu, þannig að menn hafi þá skoðun mína alveg á hreinu.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ræddi um dreifi- og efnisveitur og að Ríkisútvarpið yrði komið upp á náð og miskunn einkaaðila. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að Ríkisútvarpið geri samninga við einkaaðila á markaði. Ég sé ekkert að því. Ég sé ekki heldur neina lógík í því að Ríkisútvarpið, til viðbótar við þá aðila sem hafa verið að byggja upp dreifikerfi sín, fari að stofna til mikilla fjárskuldbindinga varðandi það að koma upp öflugu dreifikerfi. Miklu nær er einmitt sú leið sem fjölmiðlanefndin, sem hv. þingmaður var hluti af, setur fram að tryggja að dreifiveitur fái það efni inn á dreifiveiturnar sem þær kjósa og efnisveiturnar hafi líka þann aðgang. Að sjálfsögðu gildir það líka um Ríkisútvarpið sem og önnur fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði.

Ég sé enga hættu í því þó að Ríkisútvarpið fari að semja við einkaaðila, tel það frekar fagnaðarefni en hitt og treysti þeim aðilum sem eru á markaði til að tryggja það að dreifikerfi Ríkisútvarpsins verði sem best. Ég vil miklu frekar hvetja til samvinnu þessara aðila á markaðnum en ekki.

Síðan er rétt að fara aðeins yfir það sem snertir upplýsingalögin. Menn hafa velt þeim hlutum fyrir sér og við verðum að hafa í huga hver tilgangur með breytingunum á rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins er. Hann er auðvitað fyrst og fremst sá að skerpa á rekstri Ríkisútvarpsins og færa hann, eins og ég gat um áðan, til nútímahorfs. Þessi breyting felur m.a. í sér að ákvæði upplýsingalaga ná þá ekki til sameignarfélagsins eins og þau gera gagnvart ríkisstofnuninni Ríkisútvarpinu. Formbreyting þessi er ekki gerð með það í huga eða með það að markmiði sérstaklega að undanskilja Ríkisútvarpið ákvæðum upplýsingalaga. Það leiðir einfaldlega af gildissviði upplýsingalaganna að svona verður málum háttað þegar búið verður að breyta þessu rekstrarfyrirkomulagi.

Það er kannski rétt að benda á líka að á þetta ákvæði í 1. gr. upplýsingalaga hefur reynt í málum fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem upplýsingalögin þóttu ekki fullnægjandi, t.d. í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 17. desember sl. um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf., enda hefði því hlutafélagi ekki verið falið opinbert vald til að taka ákvörðun um rétt eða skyldur manna í skilningi upplýsingalaganna. Auðvitað mun þetta gilda um Ríkisútvarpið sf. og þá væntanlega á sömu forsendum.

Það er rétt að undirstrika það að markmiðið er ekki sérstaklega að taka Ríkisútvarpið undan ákvæðum upplýsingalaga.

Það er líka rétt að draga fram, sem hefur verið nokkuð til umræðu, e-lið 9. gr. frumvarpsins varðandi það sem þar kemur fram um að gefa út reglur um, með leyfi forseta, „fréttaflutning og auglýsingar í útvarpi, þar á meðal auglýsingatíma, og gæta þess að reglum sé fylgt“. Þetta ákvæði verður auðvitað að skoðast í samhengi við meginhlutverk Ríkisútvarpsins, hvaða almannaþjónustuhlutverki það gegnir. Það er dregið fram í 3. gr., m.a. það hvernig þeir eigi að sinna því að „halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð“. Það þótti ekkert óeðlilegt að rekstrarstjórnin, æðsta yfirvaldið ásamt útvarpsstjóra, gerði þessar reglur opinberar þannig að allir vissu hvernig reglurnar ættu að vera og þetta yrði að sjálfsögðu gert í samráði við þá sem starfa hjá Ríkisútvarpinu. Þetta er til þess að hafa gegnsæi og að allir geti nálgast þessar reglur.

Ef menn telja að þetta geti á einhvern hátt ógnað því markmiði að ná sátt um Ríkisútvarpið, að þetta tiltekna ákvæði ógni því að hlutleysis sé gætt varðandi rekstur Ríkisútvarpsins, hvet ég að sjálfsögðu hv. menntamálanefnd eindregið til að skoða þessi atriði afar vel með það í huga að hlutleysis verði gætt varðandi framkvæmd þessara reglna sem skipta okkur öll mjög miklu máli, þ.e. að fréttaflutningur Ríkisútvarpsins verði eftir sem áður hlutlaus, skýr og gegnsær.