131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:41]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tel fulla ástæðu til að koma hér upp og bera af mér sakir sem hæstv. forseti vill meina mér að gera og ég kveð mér þess vegna hljóðs undir liðnum um stjórn fundarins.

Hæstv. menntamálaráðherra segir að ég dylgi hér um menn og sé með ósmekklegar árásir. Ég er einfaldlega að vitna í yfirlýsta afstöðu manna og yfirlýsingar ábyrgðarmanns Ríkisútvarpsins sem er skipaður af Alþingi Íslendinga. Okkur ber lagaskylda til að veita aðhald opinberum stofnunum á borð við Ríkisútvarpið og þeim sem er treyst fyrir því. Ég er einfaldlega að gera það. Ég er að vitna til þess sem fram hefur komið hjá formanni útvarpsráðs þar sem hann segir, lýsir því yfir opinberlega, að hann vilji kalla nýráðinn fréttastjóra útvarpsins, hljóðvarps, inn á teppi og krefja hann um fréttastefnu og yfirlýsingar í ljósi undangenginna daga og vikna.