131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:43]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. menntamálaráðherra segir að sér gangi tvennt til í meginatriðum varðandi þetta frumvarp, annars vegar að nútímavæða Ríkisútvarpið og hins vegar að tryggja sess innlendrar dagskrárgerðar. Í sjálfu sér get ég alveg tekið undir þessi tvö markmið. Ég er til í að standa með hæstv. ráðherra í því að tryggja sess innlendrar dagskrárgerðar hjá Ríkisútvarpinu, bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi. Ég er líka til í að standa að því að nútímavæða RÚV.

En ég spyr: Er minn nútími sami nútími og hæstv. ráðherra? Ég er ekki viss um það. (Gripið fram í.) Ég held að við þurfum að koma okkur saman um þennan nútíma. Þess vegna hef ég mælt fyrir því að málefni Ríkisútvarpsins verði unnin í nefnd sem stjórnarandstaða og stjórnarflokkar eiga jafna aðild að, alveg á sama hátt og sátt náðist um innan fjölmiðlanefndarinnar sem hér hefur verið prísuð í dag. Það var ekki sjálfgefið, herra forseti, að sú sátt næðist eða sú sameiginlega niðurstaða. Eftir allt sem á undan var gengið í fyrravor og -sumar gátu menn ekki verið vissir um að sú sátt næðist.

Nú vil ég bara í lokin á þessu andsvari mínu biðja hæstv. ráðherra þess lengstra orða að vera ekki að þrýsta á að þetta mál verði afgreitt frá menntamálanefnd í vor. Við eigum örfáar vikur eftir af starfstíma þessa þings. Það verður heilladrýgst að fá inn umsagnir um þetta frumvarp, setja þær til menntamálanefndar og gefa henni svigrúm og ráðrúm til að ræða um þær athugasemdir sem við fáum og svo mögulega að efla vinnuna til þess að ná sameiginlegum niðurstöðum svo að við getum tryggt það að nútími minn og nútími hæstv. ráðherra verði sem (Forseti hringir.) jafnastur.