131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:19]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði í umræðum fyrr í vikunni að það mætti halda að hv. þingmaður hefði ekki komið lengi í kjördæmið. Ég vil vekja athygli hans á því að í gangi eru og fyrirhugaðar verulega miklar framkvæmdir. Ef við lítum til baka, tíu ár aftur í tímann eða svo, þá fer ekkert á milli mála að fyrir tíu árum hefði maður svo sannarlega viljað að lokið væri við allar þær framkvæmdir sem búið er að framkvæma í dag. En við verðum hins vegar að líta á þetta í ákveðnum tímabilum. Við erum að skoða núna næsta fjögurra ára tímabil og það blasir við öllum öðrum en þeim sem eru blindir af pólitísku ofstæki að miklar framkvæmdir verða í samgöngumálum í því kjördæmi sem þingmaðurinn nefndi, miklar framkvæmdir á vegakerfinu að loknu þessu tímabili.