131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:43]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Málflutningur þingmannsins er afar sérstakur. Það hefur legið fyrir að við mundum ekki ná því að tengja kjördæmin öll í einu vetfangi. Suðurstrandarvegur er tenging í hinu nýja kjördæmi og ég tel að til framtíðar litið sé það mjög æskilegur vegur og æskileg vegabót. En mætti ég minna á það t.d. að ekki er lokið við að tengja saman Norðurland og Austurland enn þá þó að gert sé ráð fyrir að ljúka því í þessari áætlun. Ekki er búið að ljúka tengingum Vestfjarða við aðra hluta Norðvesturkjördæmis. Það er því af mörgu að taka. En þingmaðurinn hefur ekki treyst sér til að gera upp á milli þessara mikilvægu verkefna í kjördæmi hans og væri fróðlegt að heyra hvort það er rétt skilið hjá mér. Við getum ekki gert ráð fyrir að framkvæma á næstu árum allar (Forseti hringir.) hugsanlegar vegabætur sem fyrir liggja og þess vegna verður þingmaðurinn að taka afstöðu, gera upp á milli verka. Hann verður að hafa kjark til þess.