131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[15:23]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur tekið á sig þá mynd sem ég held að búast hafði mátt við, þ.e. að við ræðum í hreinskilni hvernig ríkisstjórnin hefur lagt upp áherslur sínar í vegamálum og hvernig hún hefur síðan breytt þeim eftir kosningar, skorið niður framkvæmdir í einhverjum þeim alnauðsynlegasta þætti sem ríkið þarf að sinna, ákveðið að skera niður í kjördæmum þar sem sáralítið annað er um að vera.

Norðvesturkjördæmið nýtur að vísu framkvæmda í suðurhluta þess, þ.e. í Hvalfirði, en að öðru leyti vantar mikið á að nóg sé um að vera í Norðvesturkjördæminu. Ég minni sérstaklega á norðvesturhorn landsins í því sambandi.

Við umræður um fjárlög á síðasta hausti tók ég þessa umræðu sérstaklega við hæstv. samgönguráðherra, um það hvort menn ætluðu virkilega að standa að málum eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lýsti áðan, að fara aftur og aftur í þennan niðurskurð, gefa hástemmd loforð fyrir kosningar um að gera skuli átak í kjördæmunum með malarvegina, kjördæmunum þar sem vegirnir þola ekki einu sinni flutningana. Síðan skuli gripið til þess ráðs eftir kosningar að byrja niðurskurðinn enn og aftur.

Það er rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan og vitnaði til, að það er hægt að lesa beint upp úr þessari tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun til fjögurra ára sem við erum að skoða og sjá að niðurskurðurinn hefur verið nákvæmlega sá sem hann nefndi, 1.822 millj. kr. á árinu 2004, 1.900 millj. kr. á þessu ári og stefnt í 2.000 millj. kr. á næsta ári. Þessar tölur eru í þessari samgönguáætlun, því miður. Síðan er okkur sagt að gengið verði í verkin á árinu 2007. Það er sem sagt búið að hanna kosningaloforðið, hæstv. samgönguráðherra. Er líka búið að hanna svikin á árinu 2008 og 2009 ef svo óheppilega skyldi vilja til að þið yrðuð áfram við völd?

Það er ekki hægt að una því að málin séu með þessum hætti. Ég tel mikla þörf á því í okkar kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, að gera átak í vegamálum. Það hafa verið að koma til okkar forustumenn úr sveitarstjórnum á undanförnum vikum, missirum og dögum. Þeir hafa lagt sérstaka áherslu á vegakerfið í fjórðungnum, m.a. á Vestfjörðum, Strandaveg o.s.frv. Það hafa vissulega komið ábendingar frá öðrum hlutum kjördæmisins líka þótt þær séu mest áberandi á Vestfjörðum, eðlilega. Þar eru gömlu malarvegirnir. Eðlilega koma kvartanirnar mest þaðan. Þar eru samgönguþröskuldarnir. Þar gengur jafnvel vetrarumferðin bara alls ekki.

Við hljótum því, hæstv. forseti, að tala um það í fúlustu alvöru að við getum ekki unað þeirri stefnumörkun sem hér er lagt upp með. Það verður að taka öðruvísi á þessum málum. Það verður að leggja meira fé í vegakerfið sem er núna nánast að sligast undan þeim flutningum sem á því hafa lent.

Ég kenni ekki beinlínis stjórnvöldum um hvernig flutningar hafa aukið álag á vegina. Það eru ýmsar ástæður fyrir því. Mætti m.a. nefna minni skipaflutninga o.s.frv., að strandflutningar hafa að mestu leyti lagst af. En það þýðir einfaldlega að hið óburðuga vegakerfi okkar þolir ekki þá flutninga sem á það er lagt. Við sitjum uppi með þá staðreynd og komumst ekki fram hjá henni. Ég sé ekki að við höfum sérstök ráð til þess að breyta því. Við eigum ekki annan kost en að takast á við vandamálið eins og það liggur fyrir og reyna að sameinast um að leggja meiri fjármuni í þessar framkvæmdir og leggja meiri kraft í að lagfæra vegina.

Í samgönguáætlun sem samþykkt var fyrir árin 2003–2014, sem hæstv. samgönguráðherra vitnaði til í upphafi máls síns, stendur á bls. 46, um vegina, með leyfi forseta:

„Í grunnneti er miðað við að stofnvegir og tengivegir séu byggðir upp með fullu burðarþoli og bundnu slitlagi. Landsvegum í grunnnetinu verði komið í „gott horf“ samkvæmt nánari skilgreiningu, en það felur meðal annars í sér að þeir séu með allgóða legu í hæð og fleti og fái bundið slitlag.“

Þetta stendur í langtímaáætluninni og við hljótum auðvitað að reyna að vinna að því að uppfylla þetta. Síðan kemur það til sem því miður hefur gerst varðandi það að strandflutningarnir leggjast af að álagið verður miklu meira á vegina en ella væri.

Sá sem hér stendur hefur mikinn áhuga á að við gerum verulegt átak í vegakerfinu. Ég hef verið þeirrar skoðunar að bestu áfangarnir sem við höfum gert í vegakerfinu hér á landi séu annars vegar þveranir á fjörðum þar sem við náum fram verulegum styttingum og hins vegar jarðgöng, og það séu varanlegustu lausnir sem við búum við til næstu 50 ára og miklu lengur.

Ég er t.d. mjög andvígur því að menn hafi baksað við þá leið í Ísafjarðardjúpi að byggja upp og moka upp veginn fyrir Hestfjörð í staðinn fyrir að horfa til þverunar. En það var tekin ákvörðun um það verk og það er langt komið og verður ekki aftur snúið frá því. Sama má segja um Kletthálsinn þegar við fórum yfir hann í staðinn fyrir að fara í gegnum hann, svo einhver dæmi séu tekin.

Hæstv. forseti. Fyrri ræðutími minn er liðinn en ég held að full ástæða sé til þess að ég komi aftur í ræðustól.