131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[15:48]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun flytja breytingartillögu m.a. um að skera niður framkvæmdir í Norðvesturkjördæmi. Samkvæmt áætluninni veit ég ekki um marga metra af vegum sem eru ólagðir á Snæfellsnesi. Ég veit ekki hvort það eru nokkrir kílómetrar uppi á Fróðárheiði. Síðan er búið að teppaleggja allan Borgarfjörð og samkvæmt áætluninni verður það. Eina sem vantar er malbikaður vegur upp á Langjökul. Það verður næsta krafa.

Það er náttúrlega hægt að fresta einni framkvæmd eða flauta hana út af og það eru Héðinsfjarðargöng og láta alla vega þá fjármuni ganga til höfuðborgarvæðisins. Það væri mesta vitið í málinu að gera það.

Ég er sammála hv. þingmanni, ef hann talar bara um Vestfirði, að samgöngur hafa ekki verið góðar þar en þær hafa mjög lagast. Nú þegar Mjóifjörður er kominn verður Djúpvegur kominn allur niður á láglendi og þá er næst Arnkötludalur sem er á áætluninni og allt mjög gott með það. Síðan verður Svínadalur tekinn þannig að það er hægt að keyra Ísafjörð án þess að þurfa að fara yfir nokkra klif eða heiði eða annað slíkt og verður náttúrlega allt annað.

Ég er að gagnrýna t.d. suðurhluta Vestfjarða þar sem eru afar fáir íbúar og eins og ég hef sagt endar það með því að þegar búið er að taka Barðaströndina verði boruð göng á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og síðan geta menn keyrt hringinn á Vestfjörðum glaðir og kátir.

Ég vil, hæstv. forseti, svara virðulegum hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni þannig að eðlilega mun ég leggja til að fjármagn til framkvæmda á landsbyggðinni verði minnkað og aukið á höfuðborgarsvæðinu.