131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:05]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við hæstv. samgönguráðherra vil ég segja: Ég er ekki með neinar dylgjur um nokkurn skapaðan hlut. Ég hef einungis orðað það að hæstv. ráðherra sýni pirring út í Reykjavíkurlistann. (Samgrh.: Það er misskilningur.) Það er enginn misskilningur. Við höfum átt hér orðastað áður um þessi mál og það sem kemur yfir til mín er pirringur hæstv. ráðherra þegar við fjöllum um Reykjavíkurborg og þær aðgerðir sem Reykjavíkurborg hefur farið í í þessum málum og þegar Reykjavíkurborg er að gera kröfur á ríkissjóð um að fjármunir séu settir í þær framkvæmdir sem eru lögum samkvæmt á forræði ríkisins innan borgarmarkanna.

Ég hef því ekki verið með neinar dylgjur, horfi sjaldan á kjaftaþætti í sjónvarpi, les afar sjaldan þann vefmiðil sem hæstv. ráðherra nefndi þannig að ég vísa því til baka. Ég samþykki hins vegar að eiga við hann málefnalegar umræður um þessi mál.

En ég skil ekki hvers vegna hæstv. ráðherra hefur ekki svarað þessari einu spurningu sem ég lagði fyrir hann í ræðu minni: Hversu mikla fjármuni er hæstv. ráðherra að setja í umferðaröryggismálin? Hversu mikið er nýtt fé af þessum 385 milljónum sem eru að fara árlega næstu fjögur árin í áætlun hæstv. ráðherra, hversu mikið af þessu fé er að koma í fyrsta sinn í þennan málaflokk?

Er þetta flókin spurning? Þarf hún að vefjast fyrir hæstv. ráðherra? Hvers vegna fær þingheimur ekki að vita það? Hafa verið 385 milljónir á ári í umferðaröryggismál? Nei, ég held ekki. Eru þær allar nýir peningar? Nei, ég held ekki.

Spurningin er: Hversu mikið af þessum 385 milljónum á ári næstu fjögur árin eru nýir peningar? Það mundi sýna hversu mikið aukið vægi hæstv. ráðherra hefur sett á þennan málaflokk en hann vill ekki upplýsa það. Hvers vegna ekki?