131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:12]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær vegaframkvæmdir sem standa yfir, eins og hv. þingmaður nefndi, t.d. við Þrengslavegamótin og það sem gert hefur verið á Reykjanesbraut og víðar í kringum höfuðborgarsvæðið eru aðgerðir sem vissulega eyða stórum eða erfiðum, mjög hættulegum svörtum blettum, það er alveg hárrétt. En við verðum hins vegar að horfa til þess að það eru þúsundir, sennilega tugþúsundir af svörtum blettum í öllu vegakerfinu okkar. Þeir eru greindir á vísindalegan hátt af lögreglu og þeim sem annast þessi mál. Við útrýmum ekki þeim tugum þúsunda svartbletta með því að bæta fé til vegaframkvæmda. Við þurfum að fara meðvitað í að sundurgreina það hvers vegna verða til svartir blettir hér eða svartir blettir þar. Stærstu svörtu blettirnir eru kannski þeir sem útheimta mestu aðgerðirnar, stærstu framkvæmdirnar, og það er vel og ég dreg ekki úr mikilvægi þess að út í þær framkvæmdir sé farið, sannarlega ekki. En það breytir ekki því að við megum ekki hvítþvo okkur af því að hugsa um vegakerfið í heild og svörtu blettina sem eru úti um allt með því að útrýma bara þeim hættulegustu.

Hér verðum við að horfa vítt yfir sviðið, taka almennilega á, og auðvitað verða sveitarfélög og ríki að standa saman í þessum málum, það skiptir verulegu máli. En í öllu falli eru þessi svartblettamál þannig komin að fólk er orðið meðvitað um þær framkvæmdir sem beinlínis eru til að sporna við þessum svörtu blettum. Ég held líka að þeir sem eru að framkvæma á vegunum okkar, Vegagerðin, átti sig betur á því hvaða aðgerða er þörf í þessum tilfellum, þannig að auðvitað erum við með slíkar aðgerðir í fullum gangi. En það á ekki að koma í veg fyrir að hæstv. ráðherra svari hér einföldum fyrirspurnum um hversu mikið er verið að setja af nýjum fjármunum inn í þessa afmörkuðu þætti sem flokkast undir umferðaröryggisáætlunina.