131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:55]

Lára Stefánsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka jákvæð svör hæstv. samgönguráðherra. Ég bendi á af því að samgönguáætlun er hér til umræðu að það skiptir auðvitað verulegu máli við slíka fjárhagsáætlun og við gerð allra slíkra áætlana að það sé klárt að flugvöllur sé örugglega skilgreindur sem útflutningshöfn og að öll samgönguleyfi liggi fyrir þannig að auðvelt sé að gera áætlanir langt fram í tímann. Það hefur einmitt borið við að slíkt sé til fyrirstöðu því að ákveðnar áætlanir um farþegafjölda og annað gangi eftir. Þetta atriði er mjög brýnt og heildarsýn þegar heimamenn sýna frumkvæði og vilja standa undir því sem þar er að gerast, eitt og annað og þar á meðal vangaveltur um hvernig best sé að huga að millilandaflugi til Akureyrar, en slík könnun er einmitt í gangi í dag. Ég býst því við jákvæðu svari frá hæstv. ráðherra þegar þar að kemur.