131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:18]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem kom fram í umræðum hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar áðan, þessar umræður hafa nokkuð snúist um annars vegar höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina hins vegar og áherslur í fjárfestingum í samgöngumannvirkjum á þessum stöðum.

Hv. þingmaður nefndi stórhöfuðborgarsvæðið og ég hefði gjarnan viljað fá að heyra hvað stórhöfuðborgarsvæði er í hans huga. Það er verið að saka okkur landsbyggðarþingmennina um að draga fé að okkur og okkar hlutum en þannig háttar nú til einmitt í þessari samgönguáætlun að við erum afskaplega ánægð í Suðurkjördæmi, ég held allir þingmenn, með að settar skuli vera þangað 300 milljónir sem nánast allar fara í veginn yfir Hellisheiði, sem við köllum svo, en þær munu fara á Sandskeiðið. Það er ekki í Suðurkjördæminu. Þar erum við að efla samgöngumannvirki til og frá höfuðborginni, stórhöfuðborgarsvæðinu, og þess vegna langar mig að vita hvað það er vítt hugtak hjá hv. þingmanni.

Ég vil ekki að slíkir vegir verði í einskismannslandi sem enginn hefur áhuga á. Þetta skiptir miklu máli.