131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:54]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið fróðleg umræða í dag og það hefur vakið athygli mína að hafist hafa þó nokkrar deilur innan flokkanna um áhersluatriði, bæði meðal sjálfstæðismanna og nú síðast á meðal þingmanna Samfylkingarinnar um mismunandi áherslur sem snúa sérstaklega að Reykjavíkurflugvelli og framkvæmdum sem tengjast Reykjavík.

Ég ætla ekki að blanda mér mjög mikið í þá umræðu en vil þó segja að ég er mjög áhugasamur um að hægt sé að takast á við það verkefni sem er Sundabrautin. Ég held að sú framkvæmd sé afar þörf og ég held að þrátt fyrir þær framkvæmdir sem verið er að gera á Vesturlandsvegi, milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur, muni samt sem áður hinar löngu bílaraðir út úr borginni eða í borgina fyrir helgar og eftir helgar koma í ljós á þessu sumri og að þær biðraðir sem eru stundum á Vesturlandsveginum á álagstíma á morgnana og seinni part dags muni jafnvel ekki hverfa að fullu með þeim framkvæmdum sem verið er að gera á Vesturlandsvegi og eru nauðsynlegar. Þetta vildi ég sagt hafa. Ég lít svo á að Sundabrautin sé ekkert sérstakt gæluverkefni Reykvíkinga heldur sé það framkvæmd sem muni nýtast landsmönnum öllum eins og raunar flestar þær framkvæmdir sem við tölum um við lagfæringu á vegakerfinu.

Ég hef tekið eftir því að engar deilur hafa orðið í salnum milli þingmanna Frjálslynda flokksins eða þingmanna Vinstri grænna en allir aðrir flokkar hafa komið og sett fram mismunandi skoðanir, þ.e. þingmenn úr Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Það sýnir auðvitað að umræðan er mjög skipt eftir því hvar menn búa og hvernig menn líta á samgöngukerfið.

Ég lít svo á að samgöngukerfið sé fyrir alla landsmenn, hvar sem menn búa. Ég veit ekki betur en landsbyggðarmenn sæki mikla þjónustu til Reykjavíkur, hingað sæki menn verslun ef því er að skipta og einnig skemmtanir ef því er að skipta. Ég hef því litið svo á, herra forseti, eins og fjöldamargir aðrir landsbyggðarmenn að höfuðborgin sé ekki bara fyrir Reykvíkinga heldur sé hún einnig fyrir landið allt og landsbúa alla.

Í umræðunni í dag var sagt að þingmenn Reykjavíkur hefðu sýnt landsbyggðinni og landsbyggðarþingmönnum mikið langlundargeð. Ég vil mótmæla þeirri hugsun, hæstv. forseti, í ljósi þess sem ég sagði í upphafi að ég lít svo á að vegakerfið og þjóðvegakerfið sé fyrir landsmenn alla og við séum ekki sérstaklega að byggja það upp aðeins til að einhver hópur landsmanna nýti vegakerfið heldur geti allir landsmenn notið þess. Þegar talað er um að landsbyggðin hafi fengið sérstaklega miklar fjárveitingar á undanförnum árum til að takast á við verkefni í vegakerfinu held ég að það stafi fyrst og fremst af því að framkvæmdir á landsbyggðinni hafa verið og voru látnar bíða og voru langt á eftir framkvæmdunum á suðvesturhorninu og í kringum höfuðborgina og er það auðvitað eðlilegt. Hér var sennilega byrjað að malbika vegi í kringum 1950 og ég geri ráð fyrir að Reykvíkingar hafi að stórum hluta búið við þokkalegt vegakerfi innan borgarinnar í hálfa öld, en ég held að á mörgum stöðum úti á landi hafi það verið 20–30 síðar sem það fór að koma einstaka gata í þéttbýlisstöðunum á landsbyggðinni með asfalti og því miður býr svæði eins og norðvesturhornið enn þá við mikið af malarvegum, þó vonandi ekki beint í þéttbýlinu heldur einkum í aðflutnings- og þjónustuleiðunum.

Ég hef ásamt öðrum þingmönnum Frjálslynda flokksins lagt fram tillögu til þingsályktunar um að taka til við að búa til áætlun um hvernig standa eigi að jarðgangagerð hér á landi á komandi árum. Ég tel að við höfum í raun ekki farið að samþykktum þings á undanförnum árum að því er varðar jarðgangaáætlun og framkvæmdir við það.

Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að vitna í samgönguáætlun fyrir tímabilið 2003–2014, sem samþykkt var á 128. löggjafarþingi. Þar segir um jarðgöng:

„Kostnaður við jarðgöng er áætlaður um 1,5 milljarðar kr. á ári, en það svarar til þess að unnt sé að vinna nokkurn veginn samfellt að jarðgangagerð og stunda rannsóknir jafnframt. Í mati á heildarkostnaði er þessi árlegi kostnaður reiknaður út tímabilið. Fjármagn í samgönguáætlun dugir til að ljúka þeim verkefnum sem ákveðin eru í jarðgangaáætlun, þ.e. Siglufjörður–Ólafsfjörður og Reyðarfjörður–Fáskrúðsfjörður. Hafist er handa við næstu verkefni en frekari ákvarðanir bíða endurskoðunar samgönguáætlunar.“

Þetta sagði í áætluninni frá árinu 2003.

Nú hagar því miður svo til að við höfum frestað samfelldu verkefni í jarðgangagerð. Ég vil því, í lokaorðum mínum við þessa umræðu, vekja sérstaka athygli á því að ég tel bráðnauðsynlegt að við myndum okkur nýja stefnu varðandi vegi á láglendi, sem ég kalla. Við ættum að horfa til varanlegra lausna við jarðgangagerð og vantar heildstæða áætlun því að fyrri áætlun, sem búin var til á árinu 2003, hefur alls ekki verið fylgt, virðulegi forseti.

Við í Frjálslynda flokknum höfum þess vegna lagt fram þessa tillögu um að gera skipulag fyrir jarðgangagerð á komandi árum. Það hefur sýnt sig að slíkar lausnir í vegamálum eru öruggar, (Forseti hringir.) skapa mikið samgönguöryggi fyrir landsmenn og skipta sífellt meira máli í varanlegum samgöngum, bæði sumar, vetur, vor og haust.