131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:46]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Niðurskurðurinn frá toppárum og framkvæmdarárum Vegagerðarinnar upp á 2 milljarða var tilraun ríkisstjórnarinnar til að sporna við þenslu vegna stóriðjuframkvæmda. Ég studdi þá samþykkt og stend á við hana. Auðvitað fagna ég því ef meiri fjármunir koma inn í þennan geira. Það er alveg ljóst. Ég er sammála hv. þingmanni og mörgum sem hafa talað hér í dag að auðvitað hefur þetta lítil áhrif á allt sem búið er að gerast á þessu ári og síðasta í íslensku efnahagslífi og fjármálalífi þar sem streymt hafa inn í landið hundruð milljarða í húsnæðisgeirann sem hefur sprengt þetta allt saman. Þessir 2 milljarðar eru hjóm eitt í öllu því ölduróti. En ég stóð bak við þessa ákvörðun og stend enn bak við hana og með mínum ráðherra í því. Auðvitað reyndi maður að hafa áhrif á þetta til hins betra. En þetta varð niðurstaðan og ég studdi hana.