131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Inn í þessa umræðu hafa blandast fjárreiður stjórnmálaflokka og hagsmunatengsl. Hæstv. forsætisráðherra lét sér það sæma í gær þegar ég innti hann eftir hvaða ástæður væru fyrir því að hann hefði ekki enn lagt fyrir Alþingi svar við skýrslubeiðni sem lögð var fram í upphafi þessa þings, og hefur reyndar legið fyrir forsætisráðuneytinu í nær eitt og hálft ár, og sýndi með því Alþingi lítilsvirðingu, að sitja bara í sæti sínu og svara ekki þessari spurningu. Í öllum þjóðþingum sem við berum okkur saman við hafa fyrir löngu verið sett lög um fjárreiður stjórnmálaflokka. Ég vil gera ítrekaða tilraun til þess að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann muni ekki leggja fyrir þingið þessa skýrslubeiðni þannig að við getum rætt hana í tæka tíð áður en þingi lýkur. Það er ekki við það búandi að forsætisráðherra sitji bara sem fastast þegar um þetta er spurt og telji sig ekki þurfa að svara þinginu einu eða neinu þegar verið er að ræða um fjármál stjórnmálaflokkanna og hvers vegna þingið hafi ekki sett lög þar að lútandi.

Ég geri þessa tilraun einu sinni enn, virðulegi forseti, í von um að hæstv. forsætisráðherra gefi ekki Alþingi enn eina ferðina langt nef í þessu efni með því að sitja sem fastast í sæti sínu og svara hér engu um.