131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Viðbrögð við faraldri.

637. mál
[15:08]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér fer fram mjög athyglisverð umræða og ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að koma með þessa fyrirspurn á Alþingi. Þetta er auðvitað grafalvarlegt og ef fuglaflensa yrði sá heimsfaraldur sem er spáð þá væri það mjög alvarlegt.

Spænska veikin var mjög alvarleg hér á Íslandi 1918, sama ár og Katla gaus síðast. Fólkið hrundi niður og þá voru, eins og komið hefur fram, samgöngur miklu strjálli en er í dag. Í því sambandi gæti komið upp spurningin: Verður sett farbann á fólk milli landa eða innan lands? Hvernig verður með aðflutning matvæla? Ég tel mikilvægt að sinna vel undirbúningi að viðbrögðum við faraldrinum og tek undir með ráðherra varðandi það að mikilvægt er að upplýsa almenning jafnt og þétt. Við eigum að forðast alla óþarfa hræðslu en við verðum að huga vel að þessum málum.