131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[12:16]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka það að hv. þm. Guðjón Guðmundsson er iðinn og ber umhyggju fyrir landinu öllu og margt gott um það að segja. Málið snýst ekki um Akranes eða það svæði og ég held að við séum sammála um að vinna því svæði eins og öllum öðrum svæðum hið besta. Ég benti á — ekki til að stilla því upp gegn álversmálunum — aðra möguleika sem þarf að styrkja og efla á Akranesi, eins og Fjölbrautaskólann sem er allt of veikur fjárhagslega og iðnnám við Fjölbrautaskólann sem á verulega erfitt uppdráttar og ég tel þörf á að styrkja.

Ég hef líka nefnt stofnun háskóla á Akranesi sem mér finnst að eigi að fara að huga að. Ég minnist þess einmitt að í skoðanakönnun sem birt var á aðalfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga í haust var verið að kanna hvað íbúarnir teldu mesta þörf á að kæmi á svæðið. Yfirgnæfandi meiri hluti á því svæði vildi fá aukið námsframboð og möguleika á auknu námsframboði innan svæðisins. Þetta skar sig afdráttarlaust úr í óskum fólksins hvað það vildi að yrði gert á svæðinu. Ég tel því að það megi líka hlusta á það.

Annars er ég ekki að vega þetta neitt saman á nokkurn hátt en í forgangsröðinni horfum við á verkefni á landsgrunni og þó þingmaðurinn sé ekki sammála þeim rökum stjórnvalda að skera þurfi niður vegaframkvæmdir vegna þenslu í samfélaginu og m.a. vegna stóriðjuframkvæmda (Forseti hringir.) eru það rök stjórnvalda engu að síður, prentuð rök, og þess vegna finnst mér (Forseti hringir.) eðlilegt að í umræðunni sé greint frá því í hvaða röð framkvæmdin á sér stað og (Forseti hringir.) um hve háar upphæðir er að ræða. Við erum ekki að tala um hvort það eigi að ráðast í hana eða ekki.