131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Kynþáttafordómar og aðgerðir gegn þeim.

[13:55]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Niðurstöður nýbirtrar rannsóknar á vegum Rauða kross Íslands um neikvæð viðhorf ungmenna til nýbúa hafa vakið athygli og þær styðja aðrar vísbendingar um aukna kynþáttafordóma hér á landi og það er ástæða til að hafa áhyggjur af þeirri þróun.

Útlendingum með búsetu á Íslandi hefur fjölgað verulega á síðustu árum. Þeir eru um 3,5% af íbúum landsins, 70% þeirra eru af evrópskum uppruna og um 20% eru frá Asíu. Líklegt má telja að neikvæð viðhorf til nýbúa beinist fyrst og fremst að fólki af ólíkum uppruna, litarhætti og frá framandi menningarsvæðum.

Ekki er hægt að færa þau rök fyrir auknum kynþáttafordómum að útlendingar séu byrði á íslensku samfélagi því það er öðru nær. Um 80% útlendinga á aldrinum 19–66 ára sem eru búsettir hér á landi eru þátttakendur í atvinnulífinu sem bendir á mikilvægi þeirra í að halda uppi öflugu atvinnulífi hér á landi. Atvinnuleysi hér á landi er með því minnsta sem þekkist þannig að ekki eru þeir að taka atvinnu frá Íslendingum. Þessar aðstæður eru ólíkar því sem gerist í nágrannalöndum okkar þar sem kynþáttafordómar hafa aukist.

Kynþáttafordómar byggjast fyrst og fremst á vanþekkingu. Ég tel að flestir hugsandi menn telji að menningaráhrif úr fjarlægum heimsálfum geti auðgað íslenskt samfélag sé vel á málum haldið. Við ættum ekki að stöðva þá þróun síðustu ára að útlendingar kjósa í auknum mæli að setjast hér að. Við eigum að taka vel á móti þeim og aðstoða þá að aðlagast íslensku samfélagi. Þar er íslenskunám lykilatriði.

Það er brýnt að rannsaka hvers vegna afstaða ungs fólks til innflytjenda hefur harðnað eins og raun er á. Þessar niðurstöður eiga jafnframt að vera áskorun til fjölskyldna í landinu, menntakerfis, fjölmiðla, félagasamtaka, svo sem íþrótta- og æskulýðsfélaga og annarra mótandi aðila á ungmenni í samfélaginu um að taka höndum saman og berjast gegn vanþekkingu og fordómum gagnvart útlendingum. Verði það ekki gert stöndum við frammi fyrir verra samfélagi en ella. Yfirlýsing félagsmálaráðherra hér í dag er merki um að stjórnvöld eru vel (Forseti hringir.) meðvituð um ábyrgð sína og hlutverk í þessum efnum.