131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[15:36]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Verið er að bregðast við vandamáli sem upp kom vegna breyttra aðstæðna, ekki bara vegna veiða í flottroll heldur einnig vegna annarra veiðarfæra við uppsjávarveiðar.

Verið er að setja sérreglur, auðvitað er verið að setja sérreglur, en það gilda líka sérreglur um næstum allan veiðiskap hér af einhverju tagi. Það eru sérreglur um togveiðar, línuveiðar, netaveiðar og það eru meira að segja líka sérreglur um grásleppuveiðar, hv. þingmaður.

Hv. þingmaður spyr: Hefur ekki verið farið eftir lögum? Hann segir að það séu þrálátar sögur um að það hafi ekki verið farið eftir lögunum. Ég hef reyndar líka heyrt þessar þrálátu sögur og það er að hluta til ástæðan fyrir því að verið er að reyna að bregðast við breyttum aðstæðum og þrálátum sögum um að ekki sé farið eftir lögum vegna þess að lögin séu ekki í samræmi við hinar breyttu aðstæður.

Ég hef líka heyrt þrálátar sögur um að hv. þingmaður hafi ekið of hratt á bílnum sínum án þess að vera tekinn af lögreglunni og þær sögur eru svo þrálátar að þær hafa meira að segja borist á kaffistofuna. Gilda ekki sömu lög um alla? Gilda ekki sömu lög um hv. þingmann? Jú, auðvitað gilda sömu lög um hv. þingmann en það hefur borið þannig við að hann hefur verið að keyra of hratt þegar lögreglan hefur ekki séð til. Það getur líka verið að það hafi borið við að menn hafi verið að landa afla án þess að eftirlitsmenn Fiskistofu hafi séð til. Það eru ekki nema 35 manns sem vinna í Veiðieftirlitinu, eins og fram hefur komið, og þess vegna setjum við reglur sem eru þannig úr garði gerðar að hægt sé að meta hver aflinn er við vigtunina á þann hátt að það gangi upp og virki.

Varðandi meðalverðið reiknar Verðlagsstofan á Akureyri út meðalverð fyrir allar fisktegundirnar og þar á að vera hægur vandi að finna meðalverðið sem hv. þingmaður spurði um.