131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Loftferðir.

699. mál
[15:56]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir sem hæstv. samgönguráðherra hefur mælt fyrir skírskotar, eins og ráðherrann kom inn á í framsögu sinni, til sviðs breyttra reglna sem lúta að öryggismálum bæði í flugi og á flugvöllum. Sjálfsagt er á ýmsan hátt eðlilegt og rétt að við fylgjum evrópskum eða alþjóðlegum reglum hvað það varðar og náttúrlega óhjákvæmilegt annað í millilandaflugi.

Hins vegar hljótum við líka að verða að horfa til hófs í þeim efnum, sérstaklega hvað innanlandsflug varðar. Aukinn kostnaður í þessu eftirliti og þessum reglum hlýtur óneitanlega líka að hafa áhrif á verðlagið á þjónustunni — og hana borga neytendur. Við verðum þá að huga að þeirri forgangsröðun sem við erum með varðandi öryggiskröfur, hvar þær koma niður, hvernig, bæði á einstökum flugvöllum og t.d. á farþegum. Við megum ekki setja þær reglur að við skerðum möguleika flugsins innan lands. Ég er ekki að segja að það sé gert hér en í öllu þessu fári út af öryggismálum er engu að síður mikilvægt að hafa þetta allt saman í huga.

Það eru nokkur atriði sem ég vildi gera að umtalsefni og spyrja um. Í fyrsta lagi: Er það ekki rétt hjá mér að hér sé verið að tala um algildar reglur, reglur sem gilda bæði um flugferðir og flugþjónustu innan lands og líka í millilandaflugi? Það má vel vera að ég hafi ekki alveg skilið til fulls hvort það séu sértækar reglur í millilandafluginu og aðrar í innanlandsfluginu og hvort einhverjir þættir þeirra laga sem lúta að breytingu á lögum um loftferðir lúti bara að öðru hvoru, millilandafluginu eða innanlandsfluginu. Ég hefði gjarnan viljað fá það skýrt. Sé munur á, hvaða munur er þá á reglum gagnvart innanlandsflugi eða utanlandsflugi ef um það er að ræða? Séu þetta hins vegar reglur sem gilda um alla flugvelli, alla flugþjónustu, innan lands líka, hvaða kostnað erum við þá að tala um að geti orðið varðandi flugþjónustuna sem fer út í verðlagið og neytendur verða að borga?

Í umsögn fjármálaráðuneytisins um kostnaðinn er bara talað um gagnagrunninn sem slíkan þar sem segir:

„Kostnaðurinn við gagnagrunninn er áætlaður 4 milljónir króna á ári sem eru laun hjá einum nýjum starfsmanni.“

Einnig er talað um kostnað við þessar auknu kröfur sem fellur þá væntanlega á ríkið. Eftirlitið er áætlað 15 millj. kr. þannig að samtals er verið að tala um að það geti orðið um 19 millj. kr. í kostnaðarauka á ári fyrir ríkið.

Þá veltir maður fyrir sér hvort það sé allur kostnaðurinn, eða er einhver annar kostnaður utan við þetta sem gert er ráð fyrir að farþegar og flutningur beri til viðbótar við þessar 19 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að kostnaður ríkisins aukist? Í niðurlagsorðum fjármálaráðuneytisins stendur:

„Að mati fjármálaráðuneytisins á kostnaðurinn að rúmast innan fjárheimilda samgönguráðuneytisins, þ.e. þessar 19 milljónir króna.“

Ég vil bara gefa hæstv. ráðherra færi á að segja okkur hvar þær 19 millj. kr. eru geymdar hjá samgönguráðuneytinu eða hvort gert hafi verið ráð fyrir þessu í fjárlögum þessa árs. Það má vel vera.

Flugvellirnir eru flokkaðir niður hjá okkur í áætlunarflugvelli og aðra flugvelli, og þeir eru flokkaðir niður í flugvelli í grunnneti og utan grunnnets. Síðan eru aðrir flugvellir og lendingarstaðir utan grunnnets. Ég hefði gjarnan viljað heyra hjá hæstv. ráðherra hvaða áhrif þessar reglur sem hér er verið að setja hafa á hina einstöku flugvelli. Það er verið að auka kröfur, öryggi og eftirlit. Hvaða áhrif hefur þetta á stöðu hinna einstöku flugvalla? Eru þeir nú þegar í stakk búnir til að taka á móti þessum kröfum ef lögin gera þær til þeirra? Ef svo er ekki, hvað kostar þetta þá í auknum endurbótum á flugvöllum og auknum rekstrarkostnaði einstakra flugvalla, ef um það yrði að ræða?

Þetta er öryggismál sem lýtur að öllu flugi. Ráðherra getur með tilskipunum og reglugerðum aukið vægi þessara laga eða fjölgað flugvöllum og verkefnum sem falla undir þau og þá veltir maður fyrir sér stöðu þeirra flugvalla sem eru utan grunnnetsins, hvernig þeir falla undir þetta herta öryggiseftirlit.

Í 9. gr. er fjallað um hergögn og hergagnaflutninga og ég get alveg tekið undir það sem stendur í greininni, að hergögn megi eigi flytja í loftförum án leyfis samgönguráðherra. Ég vildi helst að sagt væri að þau mætti bara ekki flytja í íslenskum loftförum, ég teldi það eðlilegast og það væri í samræmi við íslenskar hefðir og íslenskar venjur að við værum ekkert að opna á möguleika á flutninga á hergögnum í íslenskum loftförum, hvort sem það væri með eða án vilja samgönguráðherra. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig er þetta núna? Eru einhver ákvæði núna sem banna hergagnaflutninga, nema þá með einhverjum afbrigðilegum aðstæðum eins og þegar íslenska ríkisstjórnin beitti sér fyrir hergagnaflutningum til Íraks eins og við munum? Þótti sumum það vera nokkurt brot á jafnvel íslenskum lögum að íslenskar flugvélar sem lutu íslenskri lögsögu skyldu vera notaðar til hergagnaflutninga fyrir önnur ríki. Það væri fróðlegt að heyra ráðherrann lýsa því hvernig hann ætlar að beita ákvæðunum um hergögn. Ég hefði viljað sjá að það væri bannað að flytja hergögn í íslenskum loftförum.

Einnig spyr ég hvernig ráðherrann hyggist beita því ákvæði að samgönguráðherra setji fyrirmæli um hvað teljist hergögn og veiti almenna undanþágu frá ákvæðum þessarar greinar í samráði við dómsmálaráðherra. Hæstv. samgönguráðherra á að fara að skilgreina hvað teljist hergögn, og þá veltir maður fyrir sér hvaða forsendur ráðherrann ætli að hafa til að skilgreina þau. Ég ítreka aftur þá skoðun mína að miðað við þann skilning sem ég legg í „hergögn“ eigi að banna flutning hergagna í íslenskum loftförum.

Einnig er kveðið á um að samgönguráðherra geti ákveðið að vopnaðir verðir séu um borð í íslensku loftfari í almenningsflugi enda séu til þess brýnar ástæður, beiðni hafi borist frá flugrekanda að kröfu erlends ríkis þess efnis og dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra mæli með því. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að þetta ákvæði sé þarna inni þó að ég taki undir frómar óskir hæstv. ráðherra um að þessu ákvæði muni aldrei þurfa að beita í íslenskri fluglögsögu hjá okkur í íslenskum loftförum. Ég spyr: Verður það ekki alveg ófrávíkjanleg krafa að slíkir vopnaðir öryggisverðir verði undir íslenskri stjórn, það verði íslenskir öryggisverðir sem lúti íslenskum lögum, íslenskri ábyrgð og íslenskri forsjá, þannig að á engan hátt sé opnað á það að einstaka þjóðhöfðingjar eða erlend ríki geti farið að gera þá kröfu að þeirra vopnuðu verðir sem lúta annarra ríkja lögsögu fari að gæta öryggis í flugi í íslenskum flugvélum? Þarna er fullkomlega íslensk lögsaga á ferðinni og hún verður ekkert framseld, er það ekki öruggt?

Varðandi hergögnin, maður áttar sig ekki alveg á lögsögu málsins, hvort þetta sé lögsaga yfir íslenskum flugvélum á íslensku fluglögsögusvæði, eða er þetta í íslenskum flugvélum hvar sem er í heiminum? Er þetta í öllum flugvélum sem fljúga í íslenskri lofthelgi og undir íslenskri flugumferðarstjórn? Til hvaða flugflota ná þessi lög og ákvæði eins og þau um hergagnaflutninga?

Í 11. gr. er fjallað um að samgönguráðherra sé heimilt að setja frekari reglur um skilyrði til flugrekstrar, þar með taldar fjárhagskröfur sem gerðar eru til flugrekenda. Þetta atriði hefur nokkuð verið gagnrýnt af ýmsum flugrekstraraðilum vegna óskýrra krafna um fjárhag og fjárhagslega burði þannig að maður veltir fyrir sér hvort ráðherrann sé eitthvað að breyta þarna til frá því sem verið hefur varðandi fjárhagskröfur til flugrekenda. Einnig minnir mig að það hafi verið gagnrýnt að flugrekstrarleyfi hefur oft verið bundið til skamms tíma, kannski eins árs í senn, og síðan hafa flugrekstraraðilar þurft að endurnýja beiðnina um flugrekstrarleyfi og jafnframt leggja þá fram öll gögn um fjárhag sinn. Ég spyr ráðherrann — ég sé hvergi minnst á tímalengd rekstrarleyfisins, hvort við höfum átt að gefa það út til lengri tíma en eins árs, tveggja ára eða fimm ára — hvaða reglur munu gilda um það.

Í 13. gr. er fjallað um heimild til að veita styrki til áætlunarflugs. Samgönguráðherra er heimilt að setja reglur um styrkveitingar til áætlunarflugs til jaðarsvæða eða á flugleiðum til flugvalla með litla umferð. Ég hygg að það sé bara hið besta mál að þessi heimild sé sett þarna eins og gert er. Ég tel reyndar mikilvægt að þetta sé inni því að eins og við vitum þjóna ýmsir flugvellir byggðum þar sem ekki er hægt að gera ráð fyrir því að greiðslur notendanna standi undir öllum flugrekstrinum. Þá er hægt að bjóða hann út með þeim hætti eins og við þekkjum að hefur verið gert t.d. til Gjögurs og Grímseyjar, svo að þessir tveir staðir séu nefndir. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að bæði Gjögurflugvöllur og reyndar Vopnafjarðarflugvöllur ættu að vera inni í grunnneti flugvalla. Þetta eru grunnsamgönguæðar viðkomandi byggða og séu þær inni í grunnnetinu er það skilgreining á vissri ábyrgð ríkisins á þjónustu við þessa flugvelli. Það gerir stöðu þeirra mun sterkari en ella þó að ég ætli ekki að gera því skóna að af hálfu ríkisins sé ætlunin að skerða þá þjónustu sem nú er við flugvelli eins og á Gjögri og Vopnafirði. Ég teldi þó eðlilegt að þeir væru inni í grunnneti flugvalla í sjálfu sér því að ekki eru stöðugar vetrarsamgöngur á landi til þessara staða.

Þó að það komi þessu máli ekki beint við hefði ég samt viljað velta upp spurningum um aðra öryggisþætti á flugvöllunum og þjónustugetu, t.d. eldsneytisafgreiðslu. Við ræddum á sínum tíma bæði um eldsneytisafgreiðslu og eldsneytisverð á flugvöllum eins og Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði og reyndar víðar en það hlýtur engu að síður að vera hluti af öryggiskerfi flugvalla og líka af þjónustuhlutverki þeirra að geta veitt með eðlilegum hætti eldsneyti á stórar vélar og án þess að það sé þá á einhverju ósamkeppnishæfu verði. Mig langar til að spyrja út í eldsneytisafgreiðsluna á þessum flugvöllum gagnvart bæði stærri og minni vélum. Hvaða öryggiskröfur og hvaða þjónustukröfur eru gerðar til þeirra hvað það varðar?

Ég hef áður líka í tengslum við vegáætlun og vegalögin gert að umtalsefni stöðu veganna að flugvöllunum. Ég tel að ekki sé einangrað hægt að horfa á flugvellina sem slíka, heldur verði líka að horfa á nánasta umhverfi þeirra. Þó að flugvellir hafi verið lagðir niður sem áætlunarflugvellir gegna þeir engu að síður mikilvægu hlutverki sem þjónustuflugvellir til ferðaþjónustu, einkaflugs, sjúkraflugs o.s.frv. þannig að þeir flugvellir sem falla úr tölu áætlunarflugvalla gegna gríðarlega miklu hlutverki áfram. En þá vill svo til að vegirnir að þessum flugvöllum detta úr tölu þjóðvega við það að flugvöllurinn verður ekki áætlunarflugvöllur lengur. Vegirnir að slíkum flugvöllum verða allt í einu einskis manns vegir. Það er enginn sem í rauninni ber ábyrgð á þeim nema þá sé samið við einhvern um að vera veghaldari. Mér finnst þetta mjög óeðlilegt. Ég tel að vegirnir að flugvöllunum, hvort sem það eru áætlunarflugvellir eða aðrir þjónustuflugvellir, eigi að vera hluti af vegakerfi landsmanna og á ábyrgð Vegagerðarinnar sem slíkir. Ég tel þetta líka vera hluta af öryggismálum og þjónustukröfum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann muni ekki beita sér fyrir því að endurskoða réttarstöðu veganna að flugvöllunum þannig að þó svo að flugvöllur fari úr tölu áætlunarflugvallar haldi völlurinn áfram gildi sínu og vegurinn að honum líka. Flugvöllur án vegar er í sjálfu sér enginn þjónustuflugvöllur.

Þetta frumvarp kemur svo til samgöngunefndar og þar gefst tækifæri til að fara betur ofan í einstaka þætti þess en ég læt gott heita að sinni varðandi þetta mál. Ég ítreka að ég óska eftir því að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem ég hef lagt fram um einstaka þætti sem þetta frumvarp felur í sér ef hann getur.