131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[18:26]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir undirtektir undir frumvarpið og tel að þær umræður sem hér hafa orðið séu góður aðdragandi þeirrar vinnu sem nauðsynlegt er að fari fram í hv. samgöngunefnd.

Ég vil sérstaklega taka undir þá greiningu sem hv. þm. Hjálmar Árnason viðhafði í lokin og tel að sú sýn sem fram kom af hans hálfu sé rétt um þau mikilvægu viðfangsefni sem Ferðamálastofu eru ætluð og aðkomu fulltrúa greinarinnar í ferðamálaráði.

Að lokum þakka ég hv. þingmönnum fyrir mjög málefnalegar umræður og góðar ábendingar sem hv. samgöngunefnd mun væntanlega fara rækilega yfir þegar nefndin fær frumvarpið til meðferðar.