131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[14:42]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á fjarskiptalögum nr. 81/2003. Helstu markmið breytinganna eru að lögfesta gerð fjarskiptaáætlunar og koma á fót samráðsvettvangi stjórnvalda og hagsmunaaðila um fjarskiptamál, auk ákvæða um geymslu gagna, um fjarskiptaumferð og upplýsingagjöf til lögreglu í þeim tilgangi að auðvelda rannsókn opinberra mála og draga úr hættu á refsiverðri hegðun á fjarskiptanetum.

Hæstv. forseti. Verulegar breytingar hafa átt sér stað í fjarskiptamálum á undanförnum árum hér á landi sem m.a. hafa leitt til afnáms einkaréttar á fjarskiptamarkaði og aukinnar samkeppni og lægra verðs til neytenda. Breytingar á fjarskiptalögum undanfarin ár hafa miðað að þessu. Frá því að einkaleyfisrekstri ríkisins lauk hefur fjöldi nýrra fyrirtækja komið fram og er ákvæðum laganna um fjarskiptaráð ætlað að skapa vettvang fyrir þau til ráðgjafar við stjórnvöld og til að vinna að framgangi fjarskiptamála í landinu.

Með fyrirhugaðri sölu hlutabréfa ríkisins í Landssímanum hættir ríkið afskiptum af rekstri fjarskiptafyrirtækja. Í þessu breytta umhverfi er nauðsynlegt að stjórnvöld setji framtíðarstefnu og meginmarkmið í fjarskipta- og upplýsingatækni fram með skýrum hætti og er það gert með stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004–2007, Auðlindir í allra þágu, og með tillögu til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun sem þegar liggur fyrir á hinu háa Alþingi og lagabreytingin gerir ráð fyrir að fest verði í sessi.

Ég mun á næstunni, raunar í dag, mæla fyrir þingsályktunartillögu um stefnu í fjarskiptamálum.

Frumvarp þetta hefur að mestu verið unnið í ráðuneytinu í samráði við Póst- og fjarskiptastofnun auk þess sem leitað var álits og tillagna helstu hagsmunaaðila auk dómsmálaráðuneytis, ríkislögreglustjóra og Persónuverndar.

Hæstv. forseti. Ég mun nú gera ítarlega grein fyrir helstu breytingum sem fyrirhugaðar eru með frumvarpinu.

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi gert ráð fyrir gerð fjarskiptaáætlunar á þriggja ára fresti. Hér er um nýmæli að ræða þar sem lagt er til að fyrir Alþingi verði lögð tillaga til þingsályktunar um stefnu í fjarskiptamálum á næstu sex árum Ég ákvað í upphafi ársins 2004 að hafist yrði handa um gerð fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2005–2010 en með henni er í fyrsta sinn mótuð heildstæð stefna stjórnvalda í fjarskiptamálum á Íslandi.

Breytingar í fjarskiptamálum undanfarin ár og samræmdri fjarskiptalöggjöf í Evrópu, sem m.a. hefur leitt til afnáms einkaréttar á fjarskiptamarkaði og aukinnar samkeppni, kallar á aðra nálgun stjórnvalda að þessum málum en hingað til hefur verið. Nauðsynlegt er að stjórnvöld setji stefnu sína í fjarskiptamálum fram með skýrum hætti og er það m.a. gert með þeirri þingsályktunartillögu sem hér verður til umræðu einnig í dag. Tilgangurinn með þeirri stefnumótun í fjarskiptaáætlun er að skilgreina nánar markmið stjórnvalda í fjarskiptamálum til næstu ára þar sem m.a. er tekið tillit til þarfa samfélagsins. Auk þess er með henni leitast við að ná fram víðtæku samstarfi hagsmunaaðila og stjórnvalda um stefnumótun á þessu sviði. Með samræmdri stefnumótun er m.a. leitast við að auka samkeppnishæfni Íslands, stuðla að framþróun atvinnulífsins, ná fram hagkvæmri nýtingu fjármagns og samræmdri forgangsröðun verkefna á þessum sviðum

Í frumvarpinu er í annan stað gert ráð fyrir því nýmæli að skipað verði sérstakt fjarskiptaráð, en með því er leitast við að koma á sérstökum vettvangi hagsmunaaðila sem verður ráðgefandi fyrir ráðherra við stefnumótun í fjarskiptamálum. Fjarskiptaráð verður jafnframt vettvangur fyrir almenn skoðanaskipti um fjarskiptamálefni fyrir hagsmunaaðila á þessu sviði, enda sitji í því aðilar með víðtæka sérþekkingu á sviðinu. Ýmis fordæmi eru fyrir slíkum samráðsvettvangi á sviði samgöngumála, t.d. siglingaráð og hafnaráð, og fer ekki á milli mála að mjög góð reynsla er af þeirri tilhögun í þeim málaflokkum.

Í þriðja lagi vil ég nefna að í frumvarpinu er kveðið nánar á um skyldur fjarskiptafyrirtækja varðandi hlerunarbúnað en um þær virðist hafa ríkt nokkur óvissa. Kveðið er á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að setja upp hlerunarbúnað í gildandi reglum Póst- og fjarskiptastofnunar. Fjarskiptafyrirtæki sem ekki hafa fjárfest í búnaði hafa borið það fyrir sig að ekki sé að finna næga stoð í lögum til þess að leggja slíkar skyldur á fyrirtækin. Eðlilegt þykir að fyrirtækin sjálf standi straum af því að byggja upp net sín á þann hátt að þessi aðgangur sé mögulegur. Því er hér lagt til að sett verði ákvæði sem kveði skýrar á um skyldur fjarskiptafyrirtækja í þessum efnum og að allur vafi verði tekinn af um ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra á fjármögnun búnaðar til hlerunar og annarrar gagnaöflunar. Jafnframt þykir rétt, til þess að koma í veg fyrir að þessi skylda verði hindrun í aðgangi að fjarskiptamarkaðnum, að kveða á um að fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild skuli veita öðrum fyrirtækjum aðgang að hlerunarbúnaði ef eftir því er leitað gegn gjaldi.

Í fjórða lagi vil ég nefna að í frumvarpinu er nýtt ákvæði um mat á rétti til greiðslu vegna alþjónustu. Með þessari breytingu er verið að skýra frekar reglur um mat á því hvort markaðsráðandi fyrirtæki eigi rétt á greiðslu úr alþjónustusjóði vegna alþjónustuskyldunnar. Sérstaklega á að skoða hvort byrðin af því að veita þjónustu sé ósanngjörn, það er gert ráð fyrir því að hún geti verið nokkur en að hún megi ekki verða ósanngjörn. Því er kveðið á um að við mat á þessari byrði skuli taka mið af markaðsávinningi af því að veita þjónustuna, þ.e. að einnig verði tekið mið af óefnislegum gæðum eins og viðskiptavild fyrirtækis sem veitir alþjónustu. Annars staðar í Evrópu hefur þessi byrði mátt nema allt að 2% af veltu fyrirtækja með alþjónustuskyldu.

Í fimmta lagi er í frumvarpinu lagt til nýtt ákvæði um reiki og vil ég vekja sérstaka athygli á því. Með þessu ákvæði er kveðið á um tveggja ára biðtíma frá því að farsímastöð er sett upp þar til Póst- og fjarskiptastofnun getur kveðið á um skyldu til samninga um reiki.

Tilgangur reikiákvæðisins í upphafi var að tryggja að unnt væri að koma á virkri samkeppni í farsímaþjónustu á öllu landinu, sem hefur tekist að mínu mati. Landssíminn er nú með 65% en samkeppnisaðilar eru með 35%. Nokkuð skortir þó á að tekist hafi að byggja upp landsþekjandi GSM-farsímanet með fullnægjandi hætti. Þau svæði þar sem GSM-farsímasamband næst ekki eru öll utan þéttbýlis þar sem arðsemin af slíkri framkvæmd er minni. Með þessu ákvæði er leitast við að hvetja fjarskiptafyrirtækin til að byggja upp fjarskiptanet sín og draga úr hugsanlegum neikvæðum áhrifum skyldusamninga til reikis. Þetta er gert með tveggja ára aðlögun eða forskoti þess fjarskiptafyrirtækis sem tilbúið er til að leggja í uppbyggingarkostnað til útbreiðslu á GSM-farskiptaneti sínu. Þetta skiptir afskaplega miklu máli þegar litið er til þeirrar hörðu kröfu sem er gagnvart fjarskiptafyrirtækjunum um að auka dreifingu í GSM-netinu.

Í sjötta lagi nefni ég skyldu til varðveislu lágmarksskráningar gagna um fjarskiptaumferð. Sú breyting sem lögð er til með nýrri 3. mgr. 42. greinar miðar að því að veita lögreglu og ákæruvaldi nægjanlegt svigrúm til að upplýsa brot með því að tryggja tilvist gagna um fjarskiptaumferð. Breytingin sem hér er lögð til rúmast innan 15. gr. persónuverndartilskipunar ESB um vinnslu persónuupplýsinga og um verndun einkalífs á sviði rafrænna fjarskipta. Benda má á að nokkur ríki í Evrópu kveða á um lengri geymslutíma og að nokkur ríki innan ESB hafa þegar lagt fram tillögu í ráðherraráði ESB um að umferðargögn séu varðveitt í 12–36 mánuði.

Með ákvæðinu sem hér er fjallað um er kveðið á um að gögn um fjarskiptaumferð, þ.e. gögn sem tryggja að fjarskiptafyrirtæki geti upplýst hver af viðskiptavinum þess var notandi tiltekins símanúmers, IP-tölu eða notandanafns, auk þess að upplýsa um þær tengingar sem notandinn hefur gert, tímasetningar þeirra, tímalengd, hverjum var tengst og um magn gagnaflutninga, verði varðveitt í eitt ár. Gert er ráð fyrir að þessum gögnum verði safnað og þau varðveitt með þeim búnaði sem þegar er til staðar vegna annarrar vinnslu fyrirtækjanna auk nauðsynlegs geymslurýmis. Ekki er gert ráð fyrir að fjárfest sé í tækjabúnaði til að aðgreina þessi gögn sérstaklega. Þá gera breytingarnar á greininni ráð fyrir að umferðargögnum sé eytt að ári liðnu auk þess sem fjarskiptafyrirtækjum beri að setja sér verklagsreglur um eyðingu gagna í samræmi við tilmæli Persónuverndar.

Í sjöunda lagi vil ég nefna skráningu frelsiskorta. Breytingin sem hér er til umfjöllunar er nýmæli og miðar að því að gera fjarskiptafyrirtækjum skylt, ég endurtek skylt, að halda skrá yfir alla notendur símanúmera í símkerfum sínum, bæði í fastlínu og farsímum, þar með talið svokölluðu farsímafrelsi. Þessi breyting, sem fram er komin að ósk ríkislögreglustjóra, miðar að því að auðvelda rannsóknir lögreglu þegar frelsissímar eru notaðir til refsilagabrota, en með óskráðum númerum er mögulegt að stunda refsiverða hegðun í skjóli nafnleyndar. Þá eru vandkvæði þessu samfara tengd hlustun lögreglu á símtölum, einkum í tengslum við rannsóknir fíkniefnabrota. Óskráð númer eru oft skálkaskjól til afbrota og með breytingunni er reynt að sporna við því.

Það getur hugsanlega verið á brattann að sækja í þessum efnum því að verulegur fjöldi frelsiskorta er í gangi, þ.e. yfir 100 þúsund kort, og ekki er víst að hægt verði að koma í veg fyrir að erlend frelsiskort komist í umferð hér. Ég tel rétt að vekja athygli á að bæði stóru fjarskiptafélögin telja að þau markmið sem að er stefnt með þessu ákvæði náist ekki, m.a. vegna fjölda óskráðra frelsisnúmera sem nú eru í umferð og vegna erlendra óskráðra frelsiskorta sem í framtíðinni verður hægt að nota hér. Nauðsynlegt er að vekja athygli á þessu því að sjálfsögðu hefur verið og verður væntanlega nokkur umræða um þessi ákvæði sem eru komin inn í frumvarpið, eins og fyrr er getið um, að ósk ríkislögreglustjóra af rannsóknarhagsmunum.

Í áttunda lagi vil ég nefna heimild lögreglu til að fá upplýsingar um hver sé eigandi símanúmers og/eða eigandi og notandi vistfangs. Með ákvæðinu, sem er nýmæli, er gert ráð fyrir heimild til handa lögreglu til að afla upplýsinga án úrskurðar dómara um eiganda ákveðins símanúmers og notanda IP-talna með formlegri beiðni þar um. Heimildin nær ekki til aðgangs að upplýsingum um innihald fjarskiptanna eða aðrar tengingar, til þess þarf áfram sérstaka heimild dómstóla sem nauðsynlegt er að undirstrika.

Hér er fyrst og fremst verið að auðvelda lögreglu öflun upplýsinga um eigendur eða notendur númera að því marki sem þeir eru þekktir en ekki aðgang að gögnum um fjarskiptaumferð. Fram að þessu hefur lögregla þurft atbeina dómstóla til þess sem oft er tafsamt og óskilvirkt með því álagi sem því fylgir fyrir réttarkerfið.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar til frekari meðferðar.