131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:35]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil undirstrika að fulltrúar ráðuneytis áttu ágætisfund með Persónuvernd í janúar síðastliðnum þar sem farið var yfir efni frumvarpsins. Þar komu fram ábendingar. Hins vegar var ekki farin sú leið að þessu sinni að leita formlegrar umsagnar enda gerðum við ráð fyrir því að Persónuvernd fengi gott tækifæri til að gera sínar athugasemdir fyrir samgöngunefnd.

Hér vegast annars vegar á rannsóknarhagsmunir og svo hins vegar persónuverndarhagsmunir og ég tel í fyllsta máta eðlilegt að hv. samgöngunefnd fari vandlega yfir þetta og leiti allra leiða til að vanda vinnubrögðin eins og nokkur kostur er.

Ég vil bara undirstrika að þessi ákvæði rata inn í frumvarpið að beiðni ríkislögreglustjóra. Ég tel að það sé ekki óeðlilegt þegar fjallað er um fjarskiptalöggjöfina, að samgönguráðuneytið taki tillit til eindreginna óska lögreglunnar, þeirra aðila sem sinna þeim vandasömu verkefnum að vinna að rannsókn á málum þar sem um lögbrot er að ræða.

Engu að síður, eins og ég sagði, vegast hér á hagsmunir þeirra sem eru að rannsaka annars vegar — það þarf að gæta þess að þeir gangi ekki of langt, það er alveg ljóst — og hins vegar persónuverndarhagsmunir sem ég tel að við Íslendingar eigum að varðveita umfram allt annað fram að ystu brún þeirra hagsmuna sem snúa að rannsóknum.