131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Staða Landspítalans.

[13:17]

Drífa Hjartardóttir (S):

Herra forseti. Stjórnun og rekstur Landspítala – háskólasjúkrahúss hefur verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu vikur. Margt hefur þar verið sagt og skrifað um starfshætti og stjórnsýslu á spítalanum, en hafa ber í huga að það er ekki þrautalaust að sameina tvo spítala í einn. Stjórnendur og starfsmenn þurfa að fá vinnufrið til að vinna sín mikilvægu störf. Þetta er stærsti vinnustaður landsins, á Landspítala – háskólasjúkrahúsi vinna nærri 5 þús. manns og heildarkostnaður spítalans á síðasta ári var 28 milljarðar kr. með þeim aukatekjum sem þeir hafa. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra jókst framlagið til sjúkrahússins frá 2002 til 2004 um 4,1 milljarð.

Það er því rangt að halda því fram að um niðurskurð sé að ræða. Stjórnendur Landspítala – háskólasjúkrahúss hafa verið að bregðast við kröfu um hagræðingu í rekstri, og reksturinn hefur batnað. Það sem þeir hafa gert er að endurbæta verkferla og stefna hefur verið mótuð í helstu málaflokkum. Settir hafa verið á framleiðslumælikvarðar og þjónustan hefur verið kostnaðargreind. Á spítalanum vinnur mjög hæft starfsfólk sem leggur sig allt fram við að veita góða og hagkvæma þjónustu. Afköstin hafa aukist umtalsvert, biðlistar hafa styst verulega og skurðaðgerðum hefur verið fjölgað. Í mörgum sérgreinum er engin bið lengur og í öðrum eðlileg eða viðunandi.

Það má segja að þarna sé allt á réttri leið. Margar nýjungar hafa verið teknar upp á spítalanum eins og stofnfrumu- og nýrnaígræðslur. Reksturinn hefur batnað og það eina sem menn biðja þar um er að fá að halda áfram að vinna að sínu góða starfi án þess að sífellt sé verið með þessar upphrópanir í þjóðfélaginu.