131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Staða Landspítalans.

[13:23]

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég get í stórum orðum sagt tekið undir allan seinni hluta ræðu síðasta ræðumanns hér um þörfina á samhæfingu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu, aukið samstarf þeirra á milli og gildi þess að byggja utan um Landspítalann eins og hefur verið unnið að og er unnið að. Vonandi sjáum við fyrir endann á því hvernig það verður fjármagnað.

Varðandi það umræðuefni sem hv. málshefjandi ber upp í dag má ætla af máli hennar að fjárheimildir til Landspítalans hafi verið að dragast saman. Hv. fyrirspyrjandi talar um sparnaðar-, hagræðingar- og aðhaldsaðgerðir stjórnvalda sem hafi bitnað á þjónustu við sjúklinga. Það er bara ekki svo, frú forseti, að hátæknisjúkrahús landsmanna búi við niðurskurð á fjárheimildum. Eins og hæstv. ráðherra rakti í máli sínu er þjónusta sjúkrahússins í örri þróun, og þjónusta sjúkrahússins tekur jafnörum breytingum. Það er stöðugt verið að leita leiða, auðvitað, til að hagræða í rekstrinum með það að markmiði að nýta sem best þá miklu fjármuni sem ríkissjóður leggur sjúkrahúsinu til með það að markmiði að tryggja að fjármunirnir komi sem flestum sjúklingum sem mest til góða.

Það er líka ljóst að hagræðingaraðgerðirnar hafa í för með sér breytingar, bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk sjúkrahússins. Það liggur í hlutarins eðli að þær hafa áhrif á sjúklinga og starfsfólk. En ég tel það mikinn ábyrgðarhluta af hv. fyrirspyrjanda að láta í veðri vaka að ekki sé veitt viðunandi þjónusta á sjúkrahúsinu. Hv. fyrirspyrjandi veit, eins og mörg okkar hinna sem erum stödd hér í þingsal, að íslenska heilbrigðiskerfið er í fremstu röð meðal þjóða heims. Á hverjum einasta degi eru inni á Landspítala – háskólasjúkrahúsi unnin afrek sem ýmist bjarga lífi fólks eða veita því nýtt líf og aukin lífsgæði.

Það blasir auðvitað við að stjórnendur sjúkrahússins standa frammi (Forseti hringir.) fyrir ýmsum verkefnum í rekstri en sjúkrahúsið hefur 25 milljarða kr. (Forseti hringir.) umleikis á hverju ári og það hefur hækkað um 4 milljarða á síðustu tveimur árum.