131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl ráðherra.

623. mál
[13:52]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Ég fagna þessari hófstilltu og jákvæðu umræðu um það mikilvæga mál sem við ræðum hér og einkanlega lýsi ég yfir ánægju með það að hæstv. forsætisráðherra og fulltrúi Framsóknarflokksins, Jónína Bjartmarz, hafi komið fram með jafnafdráttarlausa yfirlýsingu og hér um ræðir, lýsi þannig yfir stuðningi við málatilbúnað okkar jafnaðarmanna til margra ára. Það vekur hins vegar athygli að hæstv. forsætisráðherra vísar þessu máli á hendur forsætisnefnd þingsins. Ég sit þar og mun taka það mál væntanlega að mér og gera það af miklum krafti. Á hinn bóginn er það óvanalegt og vekur upp þá spurningu hvort vera kunni að forsætisráðherra eigi í erfiðleikum með samstarfsflokkinn í þessum efnum, og þess vegna þurfi hann að skáka þessu máli inn í þingið. Því væri mikilvægt að heyra frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins hvort þeir séu ekki sammála þessum allsherjarkór sem hér virðist vera á ferðinni.