131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Sveigjanleg starfslok.

691. mál
[14:06]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég þakka frummælanda og fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn því hún er mjög þörf. Fólk verður sífellt eldra og það er heilbrigðara í sinni elli og fyrir marga er vinnan lífsgæði, hluti af lífinu. Nám og vinna gefur fólkinu gildi og við ættum að skoða miklu frekar þá leið að fólk geti unnið lengur en þá í minna mæli á hverjum degi, t.d. hálfan daginn eða þrjá daga í viku eða eitthvað slíkt. Til þess þarf að breyta öllu kerfinu varðandi greiðslu lífeyris. Við þurfum að breyta líka viðhorfum atvinnulífsins. Reyndar er það svo að mörg íslensk fyrirtæki hafa veitt fólki heimild og leyfi til að vinna lengur og nýtt krafta þess fram í háan aldur og það er dálítið sérstakt hér á landi. En það eru bara einstök fyrirtæki sem þetta gera. Það eru ákveðin lífsgæði fyrir viðkomandi aðila að geta unnið lengur þó að hann geti ekki unnið eins krefjandi starf.