131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Flutningur launaútreikninga heilbrigðisstofnana frá landsbyggðinni.

631. mál
[14:35]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Sú ákvörðun sem tekin var, fyrir líklega um þremur árum, að breyta skipulagi sjúkrahúsanna og heilsugæslustöðvanna úti á landi með þeim hætti að heimamenn hefðu enga aðkomu að stjórn þeirra var að mínu viti röng, enda lögðumst við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs alfarið gegn henni. Það er mikilvægt að þessi þjónusta sé sem nátengdust heimafólki, bæði skipan hennar og stjórnun.

Eftir að heimamenn hafa enga aðild að stjórn sjúkrahúsanna úti á landi og forstöðumennirnir heyra beint undir ráðherra í Reykjavík hefur ráðherra eða ráðuneytið tekið að deila þar og drottna. Heimamenn eru takmarkað með í ráðum og hafa enga stjórnsýslulega aðkomu að því sem gerist, samanber umræðuna um sjúkrahúsin og heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu sem kom flatt upp á fólk. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég spyr ráðherra hvort hann vilji ekki breyta því og leyfa heimamönnum að halda manni í stjórn, (Forseti hringir.) halda þannig tengslum þótt forsjáin sé á ábyrgð ríkisins.