131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Byggðastofnun.

714. mál
[15:19]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Í 2. gr. laga um Byggðastofnun segir svo, um hlutverk stofnunarinnar, með leyfi forseta:

„Hlutverk Byggðastofnunar er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni.

Í samræmi við hlutverk sitt vinnur stofnunin að undirbúningi, skipulagi og fjármögnun verkefna og veitingu lána með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Fjármögnun verkefna skal eftir föngum vera í samstarfi við aðra.

Byggðastofnun fylgist með þróun byggðar í landinu, m.a. með gagnasöfnun og rannsóknum. Stofnunin skipuleggur og vinnur að atvinnuráðgjöf í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra. Stofnunin getur gert eða látið gera áætlanir um þróun byggðar og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins. Stofnunin getur einnig tekið þátt í gerð svæðisskipulags samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.“

Þessi stofnun hefur því ákaflega mikilvægu hlutverki að gegna, virðulegi forseti, ekki síst á síðustu árum þegar þróun byggðar í landinu hefur farið alvarlega úr skorðum án þess að stjórnvöld bregðist við af alvöru. Allir þekkja þá þróun sem orðið hefur á fjármálamarkaði og m.a. gert það að verkum að lántakendur hafa flutt lán sín á milli stofnana í leit að betri kjörum en eftir standa stofnanir með langtímalán sem ómögulegt er að greiða upp nema með ærnum uppgreiðslugjöldum. Afleiðingin er taprekstur viðkomandi stofnana og á síðasta ári tapaði Byggðastofnun 370 millj. kr. samkvæmt fregnum. Ljóst er að þörf fyrir fyrirgreiðslu Byggðastofnunar er mikil, sérstaklega á þeim svæðum sem mest hallar á og verst standa. Ég spyr því hæstv. ráðherra:

Hvernig hyggst ráðherra byggðamála bregðast við fyrirsjáanlegum fjárhagserfiðleikum Byggðastofnunar í kjölfar breytinga á fjármálamarkaði?