131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Byggðastofnun.

714. mál
[15:27]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hefði helst viljað hafa 102 mínútur, eða 101 mínútu reyndar eins og ég sé núna, í staðinn fyrir eina mínútu til að ræða um Byggðastofnun að þessu sinni. Hæstv. iðnaðarráðherra sagði að staða Byggðastofnunar væri erfið. Það er sannarlega rétt. Ásókn í lánsfé hefur aukist, segir stjórnarmaður í Byggðastofnun. Ég hef hins vegar þá sögu að segja, því miður, að mér virðast allt of margir kvarta yfir því að fá ekki fyrirgreiðslu hjá Byggðastofnun hvað varðar lán. Þegar Byggðastofnun setur það svo fram sem ástæðu fyrir höfnun að viðkomandi fyrirtæki standi ekki undir afborgun lána eða hafi ekki nægjanleg veð, sem er rangt að mati rekstrarmanna sem hafa verið að vinna þau gögn, er þetta mjög alvarlegt mál.

Ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort ekki sé komin ástæða til að breyta Byggðastofnun þannig að lánaþátturinn kannski minnki, og þar með tapáhættan, en meira fé komi inn til þess að kaupa hlutafé í lífvænlegum fyrirtækjum á landsbyggðinni, hlutafé sem verður svo til sölu um leið og einhver vill kaupa það þannig að Byggðastofnun geti farið út úr því og (Forseti hringir.) lagt inn í nýtt fyrirtæki.