131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Tafir á vegaframkvæmdum.

736. mál
[17:29]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég nefna að alltaf eru einhver dæmi þess að fluttir séu fjármunir með samþykkt þingmanna viðkomandi kjördæmis á milli verkefna ef þannig stendur á. Til dæmis eru dæmi um að tilboð eru lægri en áætlanir hafa staðið til þó að raunar sé fátítt að það nemi stórum fjárhæðum. Þá er hægt að nýta og færa til en síðan er það fellt inn í við afgreiðslu annaðhvort fjárlaga næsta árs eða við afgreiðslu samgönguáætlunar. Þannig er staðið að því. En ekki er um það að ræða að settar séu af stað nýjar framkvæmdir sem ekki eru á áætlun fyrir fjármuni sem eru geymdir vegna þess að framkvæmdir einstakra verka hafi ekki farið af stað. Að sjálfsögðu verður að fara að öllum þeim reglum um fjárhæðir ríkisins sem eðlilegt er að sé farið eftir.

Ég vildi aðeins nefna að það er ekki bara að verkum seinki vegna umhverfismatsaðgerða heldur einnig vegna þess að oft á tíðum er hönnun flóknari. Dæmi um það er vegurinn um Garðabæ, Reykjanesbrautin. Síðan geta komið upp deilur við sveitarstjórnir, að þær gefi ekki framkvæmdaleyfi. Dæmi um það er vegtengingin Þverárfjallsvegur niður til Sauðárkróks þar sem deilur hafa staðið innan sveitarstjórnar um hvernig sá vegur ætti að liggja, en nú (Forseti hringir.) liggur endanleg niðurstaða fyrir þar sem betur fer.