131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Framkvæmd vegáætlunar.

737. mál
[17:40]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Trúlega hefur rótin að þessari fyrirspurn verið margumræddur vegur um Þverárfjall og Gönguskörð. En ég vil að gefnu tilefni vegna ræðu hv. þingmanns segja að það væri ekki skynsamlegt að fara af stað með framkvæmdir á öðrum pörtum þessa vegar vegna þess að flöskuhálsinn um fullkomna nýtingu þessarar leiðar var brúin þarna um og vegurinn sem liggur niður að þéttbýlinu. Það var svo mikill munur á þessum tveimur leiðum að ekki var hægt að taka neinar ákvarðanir um aðrar framkvæmdir að mínu mati án þess að fyrir lægi endanleg lega þessa vegar.

Nú liggur þetta fyrir og verður ekki aftur snúið. Ég er mjög sáttur við þá niðurstöðu, tel að þar hafi verið valin besti kosturinn, og kannski var ástæða til þess að þreyja þorrann og góuna og þvermóðska samgönguráðherrans hafi leitt til þess að loksins fékkst niðurstaða um að fara þá leið sem er best fyrir byggðina en umfram allt best fyrir vegfarendur, og þar ofan í kaupið ódýrari svo nemur 30–40 milljónum. Niðurstaðan er því fengin og vonandi verður hægt að bjóða þetta verk út strax og búið er að vinna hönnun en þegar búið er að taka ákvörðun um hvar brúin á að liggja þarf að hanna mannvirkið og ekki verður það boðið út fyrr en því verki er lokið.

Niðurstaða er fengin. Það er aðalatriðið í mínum huga.