131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu.

704. mál
[14:15]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umfjöllun þeirra um málið. Ég hef engu nýju að bæta við málið efnislega enda um staðfestingu á hlutum sem við höfum búið við um hríð að ræða. Ég get algjörlega tekið undir það sem hér hefur verið sagt af hálfu hv. þingmanna og nú síðast hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að þó að mönnum hafi verið vorkunn nokkur þegar við urðum að skera þorskafla okkar niður um allt að 50%, ef ég man rétt, að menn skæru einnig niður afla til vina okkar Færeyinga tel ég að við höfum gengið jafnvel of langt í þeim efnum þá. Að minnsta kosti voru uppi kröfur, sem ég man líka mjög vel eins og hv. þingmaður, sem gengu mjög langt og ég man ekki betur en hafi gengið alla leið.

Sem betur fer var ekki eftir þeim ráðum farið á þeim tíma og ég tel að það hefði verið mikið óheillaspor ef menn hefðu jafnvel í þrengingum sínum þá létt sér örlítið róðurinn með því að ganga á vináttugjörninginn við Færeyinga og fagnaðarefni að það skyldi ekki hafa verið gert. Ég býst við að Færeyingar meti það. Við skulum heldur ekki gleyma því að okkar ágætu frændur gengu í gegnum miklar hremmingar, enn þá harðari jafnvel og harðskeyttari en við gengum í gegnum með miklum mannflótta frá eyjunum sem hafa sem betur fer gengið til baka að verulegu leyti á undanförnum árum.

Ég get líka tekið undir það, þó að ég vilji auðvitað tala varlega, að ég hef ekki verið mjög ánægður með sífelldar kröfur okkar ágætu frænda, Norðmanna, út af norsk-íslensku síldinni vegna þess að við höfum verið að ganga til móts við þær kröfur fram að þessu að nokkru og ekkert lát á. Það koma alltaf nýjar og nýjar kröfur og ekki bara nýjar og nýjar kröfur heldur nýjar og nýjar einhliða ákvarðanir gagnvart okkur. Það er ómögulegt annað en að lýsa a.m.k. yfir vonbrigðum yfir því svo ekki sé fastar að orði kveðið í þeim efnum.

Norðmenn telja sig hins vegar hafa þar góðan málstað og færa rök fyrir því með vitnun í það hvar aflinn veiðist helst um þessar mundir á undanförnum árum og þar fram eftir götunum. Það þekkja menn í þessum sal, sumir hverjir allnokkru betur en ég, býst ég við, og þarf ég ekki að fara í gegnum það.

Ég held líka að það sé eiginlega mesta furða hvað kolmunnastofninn hefur haldið miðað við þá miklu ásókn sem í hann hefur verið. Þar hafa menn auðvitað verið að heyja sín „réttindi“ með veiðum sínum fyrst ekki hefur verið neitt samkomulag sem hægt hefur verið að byggja á. Við höfum tekið fullan þátt í því, enda hefði það líka verið með vissum hætti, þó ekki gagnvart stofnunum, en af okkar hálfu ábyrgðarleysi ef við hefðum einir setið hjá í þeirri fastsetningu á nýtingu aflans sem gjarnan er miðað við þegar loks næst samkomulag um nýtingu hans. Menn hafa því verið í nokkrum vanda í þeim efnum.

Ég tek undir þau sjónarmið sem fram hafa komið hjá hv. þingmönnum varðandi þá hliðarþætti sem þeir nefndu til sögunnar og mér hefur ekki þótt að neinu leyti óeðlilegt að væru einmitt nefndir til sögunnar í umræðunni. Einnig færi ég hv. þingmönnum þakkir fyrir að hafa haft góð orð um að fylgja málinu eftir í gegnum þingið á viðeigandi stöðum eftir því sem tími og kraftar endast á þeim tiltölulega fáu þingdögum sem eftir lifa.