131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Virðisaukaskattur.

159. mál
[15:37]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Herra forseti. Með frumvarpinu er lagt til að félögum innan sömu samstæðu verði heimilt að samskrá sig í virðisaukaskattskrá. Markmiðið er að opna á þá einföldun fyrir félögin að vera ein skattaleg heild en samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu má ekki ætla að frumvarpið hafi áhrif á tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti. Er því um að ræða eðlilega viðleitni og þjónustu hins opinbera í þágu fyrirtækja sem í dag þurfa að skipta upp félögum sínum vegna núverandi skattalaga.

Umsagnir sem bárust til efnahags- og viðskiptanefndar um málið voru almennt jákvæðar og verður samþykkt frumvarpsins að teljast fyrirtækjum, sem af rekstrarlegum ástæðum þurfa að skipta rekstri í tvö eða fleiri félög, til þæginda og hagræðis. Þingflokkur Frjálslynda flokksins mun styðja frumvarpið.