131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:58]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Hæstv. forseti. Með samþykkt frumvarpsins verður enn og aftur vegið harkalega að almenningi í landinu. Þau alvarlegu áhrif sem nýsamþykkt raforkulög hafa haft á orkureikning landsmanna hafa ekki farið fram hjá hinum almenna raforkunotanda. Orkuverð hækkaði til muna, og á vissum landsvæðum svo nemur tugum ef ekki hundruðum prósentna. Umræddar hækkanir á raforkuverði sá hæstv. iðnaðarráðherra ekki fyrir. Í raun komu hækkanir orkureikninga ríkisstjórninni í opna skjöldu sem staðfestir falleinkunn á hina sömu við meðferð raforkumálsins frá því fyrr á þessu ári.

Nú aftur á móti, virðulegur forseti, stendur þingheimur frammi fyrir nýju þingmáli er varðar skattskyldu orkufyrirtækja. Samkvæmt umsögnum sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur borist við meðferð málsins má með skýrum hætti fullyrða að ef til samþykktar á þessu frumvarpi kemur á hinu háa Alþingi mun raforkuverð í landinu hækka enn frekar. Lengi getur vont versnað og kemur það óneitanlega spánskt fyrir sjónir að þrátt fyrir mikla hagræðingu og stóraukna raforkuframleiðslu í landinu er svo komið að orkureikningurinn til hins almenna notanda fer þessi missirin snarhækkandi. Ábyrgðina ber hæstv. ráðherra iðnaðarmála, Valgerður Sverrisdóttir, og að sjálfsögðu ríkisstjórnin öll sem flýtur sofandi að feigðarósi í þessum efnum.

Hitaveita Suðurnesja segir orðrétt í umsögn sinni þegar vikið er að kaflanum um áhrif á orkuverð, með leyfi forseta:

„Til að mæta auknum álögum er líklegt að hækka þurfi orkuverð.“

Orkuveita Reykjavíkur, sem m.a. er þekkt fyrir að hækka orkureikninga til hins almenna neytanda á höfuðborgarsvæðinu vegna hækkunar á lofthita, mun án efa ekki láta sitt eftir liggja við breytingar af þessu tagi. Í umsögn Orkuveitunnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Skattlagning á orkufyrirtæki mun óhjákvæmilega leiða til hækkunar verðs þar sem núverandi gjaldskrá gerir ekki ráð fyrir greiðslu tekjuskatta.“

Hæstv. forseti. Heitt vatn og rafmagn hefur talist til þjóðargersema í okkar harðbýla landi. Um er að ræða þjóðarauðlindir og er því almenn krafa hjá hinum venjulega manni að stjórnmálamenn í landinu beiti sér af krafti fyrir því að orkuverð á þessum gersemum haldist í lágmarki svo tryggt verði að auðlindir af þessu tagi skili sér með réttmætum hætti til allra Íslendinga. Í dag er til umræðu þingmál, stutt af stjórnarliðum, sem tryggja mun mikinn ósigur hins almenna notanda í formi hærri orkureikninga.

Þegar umræðan víkur að raforkusamningum sem erlendir stóriðjujöfrar eiga með ríkisstjórninni og raforkufyrirtækjum í eigu opinberra aðila þá stendur ekki á útsöluprís til hinna erlendu fyrirtækja og jafnframt er hinum sömu boðin skattfríðindi umfram það sem þekkist til íslenskra félaga og eru slíkir samningar oft bundnir til tíu ára fyrir viðkomandi félög. Þessir samningar eru fastbundnir og verður ekki breytt. Þar af leiðandi mun almenningur í landinu taka á sig í formi hærri orkureikninga allar álögur og kvaðir sem einmitt skattskyldan sem kveðið er á um í frumvarpinu mun kalla yfir orkufélögin.

Svo er nú komið, virðulegur forseti, að hv. þingmenn á Alþingi verða að bera þá siðferðilegu ábyrgð að hugsa fyrst um hag almennings í landinu í stað ofdekurs til hárra herra í atvinnulífinu. Það getur ekki liðist að þingmálið sem hér er til umræðu verði samþykkt óbreytt. Það eru ekki nema nokkrar vikur síðan stóri raforkuskellurinn reið yfir þjóðina. Á nú að bæta gráu ofan á svart?

Vera má að í umræðunni beri stjórnarliðar fyrir sig að ekki sé ástæða fyrir orkufyrirtækin að hækka gjaldskrá sína vegna breytinga af þessu tagi. Er þá vitnað til mikilla fjárfestinga orkufélaga um þessar mundir sem leiða mun af sér yfirfæranlegt tap til næstu 10 eða 20 ára. Þessi rök stjórnarliða breyta því ekki. Það segir í umsögnum orkufyrirtækjanna en þar kemur skýrlega í ljós að orkuverð mun hækka ef frumvarpið verður að lögum. Það er því bæði óábyrgt og vanhugsað af stjórnarliðum að bera þessi rök á borð fyrir hinn almenna raforkunotanda í landinu.

Enn á ný má minna á spádómshæfileika hæstv. iðnaðarráðherra sem brugðust illilega í stóra raforkumálinu. Ráðherranum ber skylda til að leggja árar í bát í spádómi sínum og horfast í augu við raunveruleikann eins og hann blasir við í þessu máli.

Í nefndaráliti meiri hlutans segir orðrétt, með leyfi forseta: „Erfitt er að meta áhrif þessara breytinga á orkuverð og arðsemi orkufyrirtækja …“

Hvað eru hv. þingmenn að hugsa, virðulegur forseti? Á ekki almenningur að fá að njóta vafans? Getur það talist ábyrg pólitík þegar hv. þingmenn láta frá sér nefndarálit með þessum hætti?

Virðulegur forseti. Hvert erum við að stefna? Það er einkennilegt og að mínu viti rangt þegar umhverfið einkennist orðið af félagslegri aðstoð til stærstu stóriðjufyrirtækja landsins sem jafnan eru í eigu erlendra iðnjöfra, til að mynda í formi skattívilnana og útsöluverðs á raforku. Á sama tíma mælast tugþúsundir Íslendinga undir fátæktarmörkum og þurfa, á góðri íslensku, sannarlega að lepja dauðann úr skel. Himinháir orkureikningar munu sannarlega gera slæmt ástand verra.

Ég hafna alfarið þessu frumvarpi, virðulegur forseti, og hvet frekar til frestunar á málinu til ársins 2012 eins og lagt er til í breytingartillögu sem ég hef sjálfur lagt fram með samþykki þingflokks Frjálslynda flokksins. Í breytingartillögunni sem er á þskj. 1203 segir orðrétt, með leyfi forseta:

„1. 8. gr. orðist svo:

Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2013 vegna tekna á árinu 2012 og eigna í lok þess árs.

2. Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi: Skipa skal nefnd árið 2009 sem meti áhrif skattskyldu samkvæmt lögum þessum á orkuverð.“

Með öðrum orðum er í breytingartillögunni kveðið á um mikilvægi þess að sett verði á fót nefnd á miðju næsta kjörtímabili sem fær það verk að kryfja til mergjar áhrif breytinga af þessu tagi á orkuverð í landinu. Annars er hætt við stóru slysi sem mun fyrst og síðast bitna á almenningi í landinu.

Í nefndaráliti meiri hlutans segir að einn megintilgangur frumvarpsins sé að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði. Þessi rök eiga ekki og geta ekki rökstutt þá ákvörðun sem fylgja mun samþykkt frumvarpsins með þeim hætti sem lagt er til í nefndaráliti meiri hlutans. Það er miklu frekar umhugsunarefni, virðulegur forseti, hvort ekki sé vert að kryfja til mergjar þann möguleika að einkafélög í orkuframleiðslu starfi undir sömu skattalöggjöf og núverandi orkufyrirtæki í opinberri eigu starfa við í dag. Með því að snúa blaðinu við með þessum hætti er megintilgangi frumvarpsins náð og það sem meira er ekki á kostnað hins almenna raforkunotanda í landinu.

Fyrr í dag óskaði ég eftir viðveru hæstv. iðnaðarráðherra við þessa umræðu. Samkvæmt fregnum sem ég hef fengið sá hún sér það ekki fært sökum ferða erlendis og ber að skilja það. Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram eins og áður segir, virðulegur forseti, að erfitt sé að meta áhrif þessara breytinga á orkuverð og arðsemi orkufyrirtækja. Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að almenningur njóti vafans í málinu. Hvernig hyggst iðnaðarráðherra mæta þessari fullyrðingu úr nefndaráliti meiri hlutans um að erfitt sé að meta áhrif frumvarpsins á orkuverðið? Ætlar ríkisstjórnin ekki að bregðast við á einhvern hátt? Kemur til greina hjá ríkisstjórninni að snúa blaðinu við og heimila orkufyrirtækjum í einkaeigu að njóta sömu skattalaga og eru í dag gagnvart orkufyrirtækjum í eigu hins opinbera?

Virðulegur forseti. Það hefur sannarlega komið á óvart að við umræðuna í dag sem hefur staðið í fleiri klukkutíma hefur lítið sem ekkert borið á þingmönnum Framsóknarflokksins. Síðast þegar ég athugaði það voru þeir ekki einu sinni á mælendaskrá í þessu máli, hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem bera höfuðábyrgð á þeim málum sem dunið hafa yfir þjóðina að undanförnu með nýsamþykktum raforkulögum. Nú á að bæta gráu ofan á svart. Það kemur fram í umsögnum við málið frá orkufyrirtækjum að breytingin mun leiða af sér hærra orkuverð. Það hlýtur að teljast ábyrg pólitík að kanna þau orð betur.