131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:38]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel á þessu stigi rétt að svara tveimur atriðum sem hv. þingmaður nefndi sem snúa að friðargæslunni og tryggingamálum þeirra. Myndin af því atriði hefur skekkst aðeins vegna þess að það er tvíþætt. Þessir menn eru tryggðir en síðan kemur að hinum þættinum, sem er hin almenna bótaregla Tryggingastofnunar ríkisins. Það eru tveir aðskildir þættir. Mennirnir eru auðvitað tryggðir.

Mér þykir lakara að fjallað sé um seinna málið þannig að Tryggingastofnun treysti sér ekki til að úrskurða þessum mönnum bætur, m.a. á grundvelli svara frá utanríkisráðuneytinu. Ég tel fyrir mitt leyti að þessir menn séu aldrei í neinu fríi. Friðargæslumenn eru ekki í fríi. Þeir verða allar stundir að vera viðbúnir hinu óvænta og þegar þeir fá tilmæli um að gegna ákveðnum störfum þá er það ekki svo að menn geti undan því vikist með góðu móti. Ég er þeirrar skoðunar að þessir aðilar hafi ekki verið í neinu fríi og vil gjarnan og vonast til þess að við áfrýjun málsins verði tekið á málum þeirra af meiri sanngirni.

Varðandi Mannréttindaskrifstofuna, sem svo er nefnd, þá var það svo að tillagan kom frá utanríkisráðuneytinu á vormánuðum á síðasta ári um að breyta þar um og þegar það sást síðan ekki í fjárlagatillögum þá var því breytt. Því er haldið fram að við séum að hefna okkar vegna umsagnar um fjölmiðlafrumvarpið. Mér er svo sem sama hvort menn trúa mér eða ekki en ég hef ekki séð þessar umsagnir, hef ekki leitað eftir þeim og veit ekki út á hvað þær ganga. Voru ekki þúsundir umsagna sem komu um það efni? Ef menn halda að þetta sé virkilega þannig að við séum að elta það uppi þá þurfum við væntanlega að elta uppi einhver hundruð manna sem gáfu einhverjar umsagnir. En menn mega ekki fara niður á þetta plan í umræðunni.