131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:10]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég telji að íslensk stjórnvöld taki ekki alvarlega þær ábendingar sem koma frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Ég sagði ekkert um það í ræðu minni að ég teldi að þau kæmu ekki til með að taka þær alvarlega. Ég benti bara á að það eru tilefni til þess að gefa íslenskum stjórnvöldum ábendingar og tilmæli af því tagi sem ég fór yfir í ræðu minni. Það hlýtur að vera vegna þess að íslensk stjórnvöld hafi ekki að öllu leyti staðið sig nægilega vel á hinn alþjóðlega mælikvarða í þeim mannréttindamálum sem þessi nefnd er að skoða. Þessi nefnd skoðar mannréttindamál í öllum ríkjum veraldarinnar, bæði þeim fátæku og þeim ríku. Ríki fá auðvitað mislanga lista af ávirðingum frá þessari nefnd. Ég geri ekki ráð fyrir að listinn sem við fáum sé mjög langur en í mínum huga er hann alvarlegur af því að við eigum að standa okkur betur en svo að við séum yfir höfuð að fá einhverjar ákúrur frá nefndinni. Í mínum huga stendur íslenska ríkisstjórnin sig ekki nægilega vel í mannréttindamálum meðan hún fær tveggja blaðsíðna lista frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna um áminningar. Af hverju er ríkisstjórnin ekki búin að lögleiða samninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi? Henni hefur áður verið bent á að það þurfi að gera. Ég held að margt megi betur fara í þessum efnum jafnvel þó að við njótum ákveðins álits hvað þetta varðar í alþjóðasamfélaginu.

Varðandi hins vegar stöðu kvenna í Írak þá var hv. þingmaður á sama fundi og ég með Eve Ensler sem kom hingað til lands fyrir skemmstu og sagði okkur ákveðnar sögur frá fyrstu hendi af konum í Írak. Ég held að það sem ég sagði varðandi stöðu þeirra nú og fyrr sé alveg í takt við það sem hún sagði okkur, þannig að við höfum tekið þessa umræðu annars staðar en í þessum sal. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef, sem koma úr fleiri en einum ranni, þá tel ég mig ekki fara með neitt fleipur (Forseti hringir.) í því sem ég sagði í ræðu minni.