131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[10:43]

Gunnar Örlygsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér kemur til atkvæðagreiðslu frumvarp frá fjármálaráðherra um skattskyldu orkufyrirtækja. Megintilgangur frumvarpsins er sá að samræma skattalöggjöf á sviði raforku, þ.e. á orkufyrirtæki, í landinu. Við meðferð málsins í efnahags- og viðskiptanefnd lagði ég fram þá hugmynd að hægt væri að nálgast megintilgang frumvarpsins með öðrum hætti en gert er með þessu frumvarpi, þ.e. að heimila einkafyrirtækjum sem eru í orkuframleiðslu í landinu, sem sagt ekki í opinberri eigu, frekar að starfa undir sömu skattalöggjöf og orkufyrirtæki í opinberri eigu gera í dag. Þar með yrði megintilgangi frumvarpsins náð.

Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans um þetta mál, virðulegi forseti, að erfitt sé að meta áhrif breytinga á orkuverð og arðsemi orkufyrirtækja. Þetta eru mjög óábyrg orð að mínu mati, frú forseti, sérstaklega í ljósi þess að umsagnir sem hafa borist efnahags- og viðskiptanefnd um málið frá orkufyrirtækjum í opinberri eigu eru öll samhljóma um það að orkuverð í landinu muni hækka ef til samþykktar á þessu frumvarpi kemur í óbreyttri mynd.

Við í Frjálslynda flokknum munum greiða atkvæði á móti þessu frumvarpi. Engu að síður munum við leggja fram breytingartillögu sem miðar að því að gildistaka frumvarpsins í heild sinni frestist frá 2006 til 2013 og að í millitíðinni, þ.e. á miðju næsta kjörtímabili, árið 2009, verði skipuð nefnd sem kanni rækilega og fari ofan í kjölinn á því hvaða áhrif breytingar af þessu tagi muni hafa á orkuverð í landinu.