131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[18:25]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mun náttúrlega víkja að þessum efnisatriðum í síðari ræðu minni.

Við þurfum að eiga næga fjármuni til að reka velferðarþjónustuna, það er rétt. Ég tel hins vegar að þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur gengist fyrir á sviði stóriðju muni ekki skila okkur þeim fjármunum. Um það stendur deilan.

Við töldum að í stað þess að ráðast í þessar ríkisframkvæmdir, þetta eru framkvæmdir á vegum og á ábyrgð ríkisins, ég held að hv. þingmaður eigi að fara varlega í að tala um ríkisrekstrarsinna í því efni. Við höfum hins vegar viljað styrkja annars konar iðnað, annars konar uppbyggingu til þess að skapa verðmætin í landinu.

Síðan er hitt. Hv. þingmaður talaði um vilja Framsóknarflokksins til að niðurgreiða raforku og niðurgreiða hitt og þetta. Menn hafa talað um heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið í því samhengi. Ég tel þetta vera svolítið úrelta nálgun vegna þess að peningamennirnir og fjárfestar sem vilja fjárfesta í velferðarþjónustunni, t.d. á sviði heilbrigðismála, vilja gjarnan að skattborgarinn greiði þetta allt saman. Þeir vilja jöfnun og millifærslur. Þeim er það ekkert andsnúið. Þeir vilja hins vegar hafa arðinn út úr þessu. Þannig hefur það gerst í Bandaríkjunum, svo dæmi sé tekið, að heilbrigðisþjónustan þar hefur orðið sú dýrasta í heiminum. Ætlum við þá að horfa á ríkisútgjöldin og segja: Sjáið þið hvað þeir eru miklir vinstri menn, félagshyggjumenn, Bandaríkjamenn. Þeir eru með svo dýrt heilbrigðiskerfi. Þeir verja svo drjúgu hlutfalli af landsframleiðslu sinni til heilbrigðismála. Sjáið þið hvað þeir eru vinstri sinnaðir. Þetta er röng og vafasöm nálgun. (Forseti hringir.)

Ég mun koma nánar að öðrum þáttum, einkavæðingu bankanna og öðru sem hv. þingmaður vék að í síðari ræðu minni í kvöld.